Ábyrg kolefnisjöfnun – Álit Loftslagsráðs
október, 2020

Umfjöllunarefni

Viðskipti með kolefniseiningar eru enn sem komið umfangslítil í íslensku hagkerfi en ör vöxtur er fyrirsjáanlegur á þessum markaði. Það er því nauðsynlegt að tryggja að íslenskar kolefniseiningar standist alþjóðlegar gæðakröfur og byggi á viðurkenndri aðferðafræði við útgáfu kolefniseininga á grundvelli mælinga. Viðskipti með slíkar einingar þurfa einnig að vera gagnsæ og rekjanleg. Ekki er síður mikilvægt að kolefnisspor þeirrar starfsemi sem til stendur að kolefnisjafna sé metin með viðurkenndum aðferðum. Einnig þarf að vera ljóst hvort kolefnissporið takmarkist við beina losun frá viðkomandi starfsemi eða hvort einnig hafi verið lagt mat á hlutdeild í kolefnisspori annarra þátta virðiskeðjunnar.

Helstu ábendingar

  • Uppbygging innviða kolefnisjöfnunar gerist of hægt: Loftslagsráð telur uppbyggingu innviða kolefnisjöfnunar gerast of hægt og brýnt að ráðist verði sem fyrst í úrbætur á eftirfarandi veikleikum.
  • Skortir alþjóðlega viðurkennda aðferðafræði: Mjög skortir á að alþjóðlega viðurkenndri aðferðafræði sé beitt við mælingar og útgáfu kolefniseininga sem leiðir til þess að einingar á markaði eru ekki sambærilegar og draga má í efa að sumar þeirra standist lágmarksgæðakröfur.  
  • Skortir miðlæga skráningu: Það skortir miðlæga skráningu á útgáfu kolefniseininga, á viðskiptum með slíkar einingar og afskráningu þeirra þegar þær eru nýttar til kolefnisjöfnunar. 
  • Viðmið um ábyrgar yfirlýsingar: Móta þarf viðmið um ábyrgar yfirlýsingar á samkeppnismarkaði og frá opinberum aðilum um að vara eða þjónusta hafi verið kolefnisjöfnuð. Slík viðmið þurfa að ná bæði til upplýsinga um kolefnisspor sem jafna skal og til eiginleika þeirra kolefniseininga sem nýta má til jöfnunar.  
  • Úrbætur krefjast sameiginlegs átaks: Úrbætur krefjast sameiginlegs átaks aðila á markaði, fagstofnana, vottunaraðila og opinberra eftirlitsaðila. Loftslagsráð hvetur Stjórnarráðið eindregið til að stuðla að því að viðskipti með kolefniseiningar hér á landi standist fjölþjóðlegar kröfur um gæði eininga, gagnsæi og rekjanleika. Samkeppnisyfirvöld þurfa einnig að hafa eftirlit með yfirlýsingum um kolefnisjöfnun vöru og þjónustu og tryggja að slíkar yfirlýsingar standist samkeppnislöggjöf og önnur viðmið um eðlilega viðskiptahætti.