Rýni á aðgerðaáætlun í loftslagsmálum
25. júní, 2020

Loftslagsráði er ætlað að  rýna á undirbúningsstigi áætlanir stjórnvalda sem snerta loftslagsmál, þ.m.t. aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Ráðið samþykkti álitsgerð um fyrirliggjandi drög aðgerðaáætlunarinnar á fundi 29. apríl 2020 og kom á framfæri við stjórnvöld. Ný aðgerðaáætlun í loftslagsmálum var svo kynnt 25. júní. Hægt er að kynna sér aðgerðaáætlunina á vefsíðunni CO2.is.

Rýni Loftslagsráðs á aðgerðaáætlun í loftslagsmálum

Áratugurinn sem er að hefjast skiptir sköpum í viðbrögðum við loftslagsvá. Loftslagsráð fagnar því að endurskoðun aðgerðaráætlunar stjórnvalda í loftslagsmálum er nú á lokastigi. Aðgerðaráætlunin er nauðsynlegt skref í vegferðinni sem fram undan er. Fulltrúar í Loftslagsráði eru sammála um að meira þurfi til vegna hættu af alvarlegum afleiðingum loftslagsvár. Á alþjóðavettvangi eru hafnar umræður um ný og metnaðarfyllri markmið um samdrátt í losun og er ESB þegar farið að ræða 50-55% samdrátt í losun. Strax við útgáfu áætlunarinnar verður að hrinda fullmótuðum aðgerðum í framkvæmd og hefja kröftuga vinnu við undirbúning frekari aðgerða. 

  • Áætlunina verður að gefa út sem fyrst og fylgja henni eftir með festu og enn ítarlegri aðgerðum. 
  • Aukinn metnað þarf til að nauðsynleg markmið náist. Þættir sem metnir eru í áætluninni gefa til kynna 28% samdrátt en eftir er að útfæra aðgerðir í lykilatvinnuvegum sem gætu leitt til 40% samdráttar og marka leið að kolefnishlutleysi.  
  • Virkja þarf samstarf sem fyrst því tækifærin geta runnið okkur úr greipum ef ekki er gripið til aðgerða strax. Aðgerðir stjórnvalda einar og sér duga ekki til og því er aðkoma annarra nauðsynleg. Öll stjórnsýslustig þurfa að vinna þétt  saman.  
  • Skýra þarf framsetningu á losun frá landnotkun og hvernig miðað er við ólíka tímaramma þegar tölur eru settar fram. 

Setja þarf sem fyrst markmið og markvissari skref í aðgerðum sem eftir á að útfæra, m.a. um sjávarútveg, landbúnað og varðandi orkuskipti í þungaflutningum. Í fyrri ályktunum  benti Loftslagsráð á atriði sem nú hafa verið færð til betri vegar og má þar nefna að uppsetning er einfaldari og tengingar eru við losunarbókhald Íslands skýrari. Það er jákvætt að stefnt er að gagnsæju upplýsingaflæði með vefsvæði þar sem fylgjast má með árangursmati og framgangi verkefna á milli reglulegrar uppfærslu áætlunarinnar í heild. 

Loftslagsráð hefur hvatt til samstöðu meðal þjóðarinnar um ásetning í loftslagsmálum og samstarfs milli ríkisvalds, sveitarfélaga, atvinnulífs, fagstofnana, félagasamtaka og almennings. Áætlunin þarf að hafa þau áhrif að leysa úr læðingi og virkja framfarakraft. Stjórnvöld hafa forystuhlutverk en allar aðgerðirnar eru þess eðlis að fleiri en ríkisvaldið þurfa að koma að þeim til að vel takist til. Skerpa þarf á framsetningu á því hverjir helstu gerendur, samstarfsaðilar og hagaðilar eru. Með því móti setur áætlunin fram áskoranir og verður ákall ríkisstjórnarinnar um samstarf og þátttöku. Efla þarf samstillingu innan hins opinbera einkum milli ríkis og sveitarfélaga. Ábyrgð í loftslagsmálum hvílir mjög á sveitarstjórnum og auka má árangur með því að efla samráð ríkisvalds við sveitarfélög. 

Eftirfylgni með áætluninni þarf að vera lifandi og stöðug endurskoðun þarf að eiga sér stað. Fylgjast þarf með framgangi og stjórnvöld þurfa að vera tilbúin til að herða á aðgerðum ef þróunin gefur tilefni til. Setja þarf skýr viðmið um hvenær grípa þarf inn í. Tryggja þarf að verkefnastjórn aðgerðaáætlunarinnar sé í stakk búin til að hafa nauðsynlega yfirsýn og hafi úrræði til að tryggja eftirfylgni. Árangursmælikvarðar þurfa að vera gagnsæir og ættu annars vegar að tengjast einstökum aðgerðum og hins vegar vera víðir og lýsa samfélags- og efnahagsþróun á stórum skala. 

Það er veikleiki í áætluninni að spár um losun sem byggja á eldsneytisspá frá 2016, eru úreltar í mikilvægum atriðum. Spár, s.s. eldsneytisspá, þarf að uppfæra reglulega og loftslagsbókhald Íslands þarf að uppfæra hraðar. Ráðið telur tímabært að setja fram, samhliða orkuspá, raunhæfa áætlun um hvernig útfösun jarðefnaeldsneytis verður náð. Lýsa þarf óvissuþáttum varðandi mat á væntum árangri. Vinna þarf kostnaðar- og ábatagreiningu þar sem m.a. þjóðhagsleg áhrif eru metin og sett fram með skýrum hætti. Kostnaður við eina aðgerð getur leitt til sparnaðar á öðrum sviðum og greiningin ætti að taka tilliti til þess. Tryggja þarf sanngjörn umskipti í hagkerfinu sem leiða til velferðar og greina áhrif á mismunandi samfélagshópa og því þarf að vinna kostnaðar- og ábatagreininguna í tengslum við rýni með tilliti til jöfnuðar og félagslegs réttlætis aðgerða. 

Beinar aðgerðir á afmörkuðum sviðum eru nauðsynlegar en stefnubreytingar þurfa einnig að koma til. Tímabært er að víkka sjónarhornið og samtvinna betur aðkomu löggjafans og framkvæmdavaldsins og aðra ákvarðanatöku þannig að úr verði heildstæð loftslagsstefna Íslands. Öll löggjöf og stefnumörkun stjórnvalda þarf að taka mið af loftslagsmálum svo velferð og hagsæld verði tryggð til framtíðar. Auka þarf gagnsæi og skýra hvernig tekjur af hagrænum stjórntækjum svo sem kolefnisgjöldum og grænum sköttum skila sér til aðgerða í loftslagsmálum og að gjaldtakan verði ekki varanleg. Tryggja þarf fjármagn til nauðsynlegra aðgerða, en frekara fjármagn þarf til til að viðunandi árangur náist. 

Vinna þarf hratt, grípa tækifæri sem skila árangri fljótt en vinna jafnframt með sýn til framtíðar. Kjark og þrautseigju þarf til að fylgja eftir fjölþættum aðgerðum. Vegna þess að aðgerðirnar eru misjafnar að eðli og gerð þá þarf eftirfylgnin að vera sérsniðin og hafa eftirfarandi í huga: 

  • Hraði innleiðingar: Sumar aðgerðir er hægt að ráðast í hratt þar sem þær eru tæknilega einfaldar og krefjast aðkomu fárra aðila. Aðrar þarfnast uppbyggingar innviða, rannsókna eða langs framkvæmdatíma. Allar eiga þó sameiginlegt að hefjast þarf handa strax.  
  • Áhrif: Ekki er sjálfgefið að aðgerðir sem hægt er að ráðast í hratt hafi mest áhrif til lengri tíma litið. Þolinmæði og þrautseigju þarf til að fylgja eftir aðgerðum sem taka lengri tíma, eru flóknari úrlausnar og krefjast aðkomu margra aðila. 
  • Mælingar og mat á árangri: Nokkrar aðgerðir eru þess eðlis að erfitt er að mæla árangur beint. Sú staðreynd má hins vegar ekki virkja letjandi. Stefnufestu og framsýni þarf til að fylgja eftir verkefnum þar sem erfitt getur verið að sýna fram á árangur fyrir fram. Skipulag og fræðsla, svo dæmi sé tekið, styðja við aðrar aðgerðir frekar en að skila beinum samdrætti í losun en eru þó nauðsynleg forsenda þess að áætlunin í heild gangi upp. 

Breyttar aðstæður meðan COVID-19 heimsfaraldurinn stendur sem hæst og í kjölfar hans setja áætlunina í nýtt samhengi. Óvissutímar kalla á sveigjanleika og skýr markmið. Fram undan er uppbyggingartímabil og nýta þarf fjármagn í að stýra samfélaginu í átt að því lágkolefnishagkerfi sem þjóðin sækist eftir. Endurreisnin opnar tækifæri til að auka enn frekar samkeppnishæfni Íslands og styrkja stoðir nýsköpunar og atvinnulífsins sem þarf að aðlagast breyttum heimi. Opinberir aðilar geta gengið á undan með góðu fordæmi í fjárfestingum og vistvænum framkvæmdum m.a. í byggingariðnaði, innleiðingu nýrra orkugjafa og endurnýjun innviða.  

Aðgerðaráætlun stjórnvalda í loftslagsmálum 2020 er mikil framför og hvatt er til útgáfu hennar sem fyrst. Tafarlaust þarf að hrinda fullbúnum aðgerðum í framkvæmd. Samhliða þarf að leggja grunn að næstu skrefum og greina frá nýjum aðgerðum og eftirfylgni jafnóðum, þó áætlunin í heild sinni verði endurútgefin með jöfnu millibili. Loftslagráð hvetur stjórnvöld til að nýta meðbyrinn í samfélaginu. Huga þarf að efnahag heimila jafnt og þjóðarbúsins. Grípa þarf tækifærið til að setja fram öflugar og afdráttarlausar aðgerðir, þó þær geti verið erfiðar. Allt hik mun koma niður á komandi kynslóðum.

Til viðbótar við þessa ályktun ráðsins sem heildar komu fulltrúar í Loftslagsráði, sem endurspegla fjölþætt bakland, með beinar ábendingar og tillögur sem komið var á framfæri við stjórnvöld.