Það getur haft í för með sér verulegan fjárhagslegan kostnað fyrir Evrópuríki að standast ekki skuldbindingar sínar um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Mun skynsamlegra er að grípa til aðgerða og afstýra þessum kostnaði. Peningana sem þannig sparast má nota til að grípa frekar til markvissra aðgerða sem bæði minnka útblástur og auka velsæld. Slíkar aðgerðir geta kostað það sama eða mun minna en sem nemur kostnaðinum við að mæta ekki skuldbindingum. Að gera ekki neitt, eða ekki nóg, er versti kosturinn í loftslagsmálum.
Þetta er í stórum dráttum niðurstaða nýrrar írskrar greiningarskýrslu, sem Loftslagsráð Írlands og Ráðgjafanefnd Írlands í ríkisfjármálum hafa unnið saman. Allt stefnir í að Írar nái ekki að uppfylla skuldbindingar sínar um samdrátt í útblæstri. Mikilvægt þótti að vita hvaða áhrif það hefði á írsk ríkisfjármál. Skýrslan veitir einnig öðrum Evrópuþjóðum mikilvægar vísbendingar um þann kostnað sem þær gætu þurft að axla standist þær ekki skuldbindingar sínar.
Samkvæmt skýrslunni munu Írar þurfa að greiða öðrum Evrópusambandsríkjum á bilinu 8 til 26 milljarða evra, ef aukinn kraftur verður ekki settur í að framkvæma þegar samþykktar loftslagsaðgerðir. Írar eru á eftir áætlun hvað þessar aðgerðir varðar. Stjórnvöld gætu minnkað þennan kostnað niður í 3 til 12 milljarða evra ef aðgerðum, sem nú eru einungis á hugmyndastigi, yrði ýtt í framkvæmd. Enn metnaðarfyllri loftslagsaðgerðir myndu minnka kostnaðinn enn frekar, jafnvel niður í ekki neitt. Töluverð óvissa ríkir þó um kostnað og uppgjörsreglur sem meðal annars útskýrir á hversu breiðu bili matið liggur.
Í skýrslunni er bent á, að í stað þess að slá slöku við í loftslagsmálum, og þurfa að greiða þessar upphæðir, sé mun skynsamlegra að nota þessa peninga til þess að grípa til yfirgripsmikilla aðgerða í loftslagsmálum, sem auka jafnframt hagsæld og velferð til lengri tíma á Írlandi.
Þannig sé áætlaður kostnaður við að uppfæra raforkuflutningskerfi Íra um 7 milljarðar evra. Hægt væri að fara langleiðina í orkuskiptum í vegasamgöngum, og rafbílavæða fólksbílaflotann, með um 4 milljarða evra aðgerðarpakka. Yfirgripsmiklar aðgerðir til þess að endurheimta votlendi og skóglendi myndu kosta um einn milljarð evra.
Allar þessar aðgerðir myndu minnka útblástur til muna og þar af leiðandi minnka þann kostnað sem Írar þyrftu annars að bera, standist þjóðin ekki skuldbindingar sínar. Ýmis annar ávinningur slíkra aðgerða, ótengdur loftslagsmálum, myndi einnig fylgja í kjölfarið. Þessar aðgerðir myndu auka raforkuöryggi, styrkja innviði, bæta lýðheilsu, auka efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar og skapa ný störf.
Írar og önnur Evrópusambandsríki, auk Íslands og Noregs — eru þátttakendur í regluverki Evrópusambandsins í loftslagsmálum. Þessi ríki hafa sett sér það sameiginlega markmið að draga úr losun —— um 55% fyrir árið 2030, sem er eftir fimm ár. Er þá miðað við losun eins og hún var árið 1990.
Mismunandi reglur og markmið gilda um ólíka flokka losunar. Svokallað regluverk sameiginlegrar ábyrgðar, eða Effort Sharing Regulation (ESR), hefur verið sett á laggirnar til þess að ná samdráttarmarkmiði upp á 40% í losun frá heimilum, þjónustu, vegasamgöngum, sjávarútvegi, smáiðnaði og úrgangi. Það felur í sér að ákvarðað er, út frá aðstæðum hverrar þjóðar, hvert framlag hvers og eins ríkis skuli vera í samdrætti, svo þessu heildarmarkmiði verði náð. Þannig hafa Írar tekið á sig að draga úr samfélagslegri losun um 42% fyrir árið 2030, miðað við útblástur árið 2005. Nái Írar ekki þessum markmiðum munu þeir þurfa að kaupa losunarheimildir af öðrum Evrópuþjóðum sem hafa staðið sig betur í að ná markmiðum sínum.
Evrópusambandsríkin hafa jafnframt sett sér það markmið að draga úr losun vegna landnotkunar. Nái Írar ekki þeim markmiðum, munu þeir einnig þurfa að borga. Sama gildir um markmið um hlutfall endurnýjanlegrar orku. Langstærsti hluti kostnaðar fyrir ríkissjóð Íra, náist ekki tilætlaður samdráttur, mun þó hljótast af samfélagslegri losun og ESR kerfinu.
Hér er ótalinn sá kostnaður sem írsk stóriðja og flugfélög gætu þurft að axla standist þau ekki losunarmörk sem sett hafa verið innan viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir (ETS), en ríkissjóðir bera ekki þann kostnað, nema hugsanlega óbeint, heldur fyrirtækin sjálf.
Ísland er þátttakandi í skuldbindingum Evrópusambandsríkja og Noregs um samdrátt í útblæstri. Ekki hefur verið kerfisbundið áætlað hér á landi, á sama hátt og Írar hafa nú gert, hvað það geti kostað ríkissjóð ef Ísland stenst ekki sínar skuldbindingar í loftslagsmálum, en áætla má að þær upphæðir gætu orðið verulegar.