Fyrsta hnattræna stöðumatið á hvort ríki heimisins séu á réttri leið til að ná langtímamarkmiðum Parísarsamningsins var unnið á síðasta ári og kynnt á COP28 loftslagsþingi aðildarríkja UNFCCC.
Norðurlöndin unnu sameiginlegt stöðumat þar sem farið er yfir stöðu hvers lands fyrir sig og birtu það í aðdraganda COP28. Í stöðumatinu kemur meðal annars fram að heildar nettólosun norrænu ríkjanna (með LULUCF) hafi farið úr 203 milljónum tonna CO2e árið 1990, niður í 150 milljónir tonna CO2e árið 2021 og þannig dregist saman um 26% yfir tímabilið. Þar muni mest um samdrátt í losun frá orkugeiranum og bætta úrgangsmeðhöndlun.
Það sé því ljóst að þrátt fyrir að Norðurlöndin þyki skara fram úr á heimsvísu þegar kemur að loftslagsaðgerðum þá eigi þau enn langt í land til að ná sameiginlegu markmiði ESB ríkjanna, auk Noregs og Íslands, um að draga úr losun um 55% fyrir árið 2030 miðað við árið 1990.
Norðurlöndin hafa öll sett sér markmið um að ná kolefnishlutleysi, ýmist fyrir árið 2040 eða árið 2050 og í stöðumatinu er einnig rýnt hvað það felur í sér, svo sem hvers konar kolefnishlutlausu samfélagi ríkin stefni að, hvaða leiðir þau hyggjast fara til að ná framsettum markmiðum og hvernig þeim miðar. Fram kemur að þó flestum löndunum miði þokkalega áfram séu ýmsar áskoranir og hindranir í veginum sem þarf að takast á við af fullum þunga til að ná kolefnishlutleysi innan settra tímamarka. Margar áskorananna séu þær sömu þvert á öll Norðurlöndin og eigi eflaust líka við um allan heim.
Þar megi til að mynda nefna undirliggjandi tortryggni gagnvart aukinni vinnslu á grænni orku vegna mögulegra neikvæðra áhrifa nýrra mannvirkja á íbúa í nágrenni þeirra og meðfylgjandi náttúrutap, sem og seinagang í úrvinnslu á leyfisveitingum sem hægir á fyrirhugaðri framleiðsluaukningu. Fyrirséð framboð af grænni orku muni því hugsanlega ekki verða í takt í við áform stjórnvalda um minnkandi hlutdeild og útfösun jarðefnaeldsneytis.
Hlutverk lífeldsneytis sé enn óljóst hvað varðar orkuskipti í samgöngum því framleiðsla þess mun alltaf verða í samkeppni við aðra landnotkun, svo sem matvælaframleiðslu eða vistkerfavernd. Þó þróun í fjölgun rafbíla sé jákvæð þá aki langstærsti hluti bílaflota Norðurlandanna enn á bensíni eða díselolíu. Orkuskiptin sem þurfa að eiga sér stað í vegasamgöngum séu þannig veruleg áskorun.
Fram kemur að helstu áskoranirnar hvað varðar iðnað og losun frá iðnaðarferlum tengist hvernig skuli að hvetja til minnkunar á losun í alþjóðlega samkeppnishæfum geira en koma samhliða í veg fyrir kolefnisleka, sem og hvetja til frekari þróunar og umfangsmeiri notkunar á tæknilausnum til kolefnisförgunar.
Í úrgangsstjórnun tengist áskoranirnar helst hvernig skuli draga úr úrgangsmyndun, auka endurvinnsluhlutfall flokkaðs úrgangs og almennt séð örva hraðari og víðtækari umskiptum yfir í hringrásarhagkerfi þar sem nýtni er ofar öllu.
Í stöðumatinu kemur einnig fram að töluverð áskorun felist í að draga úr kolefnislosun frá landbúnaði. Það kalli að einhverju leyti á umbreytingu geirans en samtímis þurfi að tryggja fæðuöryggi, örugga innkomu bænda sem og horfa til framtíðarþróunar dreifbýlis á Norðurlöndunum. Erfitt hafi reynst að ná markmiðum um aukna kolefnisbindingu í jarðvegi og gróðri sem og að draga úr losun frá landi. Það eigi sérstaklega við um losun frá framræstu votlendi sem í mörgum tilfellum er nýtt til ræktunar. Þar að auki hafi norrænu skógarnir tapað hluta kolefnisforða síns undanfarin ár vegna loftslagsbreytinga og aukinnar ásóknar í lífmassa þeirra.
Keimlíkar áskoranir fela í sér sambærilegar lausnir og í stöðumatinu er einnig farið yfir og settar fram tillögur um hvernig Norðurlöndin geti enn frekar styrkt samstarf sitt til að ná loftslagsmarkmiðum.