Uppbygging stjórnsýslu í loftslagsmálum – Álit Loftslagsráðs

Umfjöllunarefni

Hinn 12. desember 2018 samþykkti Loftslagsráð álit undir yfirskriftinni: „Öflug stjórnsýsla í Loftslagsmálum“. Álitið felur í sér svar við beiðni umhverfis-og auðlindaráðherra um að Loftslagsráð vinni tillögur um framtíðarfyrirkomulag stjórnsýslu í loftslagsmálum. Ráðherra óskaði í kjölfarið eftir nánari greiningu ráðsins á fjárveitingum, mannauði og innviðum auk sviðsmynda um framtíðaruppbyggingu. Ráðið telur sig ekki hafa burði til að vinna slíka stjórnsýsluúttekt sjálft og leggur því til að ráðherra feli sérfróðum aðilum slíka úttekt. Í ljósi reynslu af starfi Loftslagsráðs eftir að ofangreint álit var lagt fram telur ráðið sig nú hafa forsendur til að koma með frekari ábendingar. Eðli loftslagsvandans gerir miklar kröfur til stjórnsýslunnar og því áríðandi að efling hennar taki mið af skýrri þarfagreiningu og skilningi á áskorunum.

Viðfangsefnið beinist að tveimur meginmarkmiðum: 1) Draga úr uppsöfnun gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu og hægja þannig á og síðar stöðva röskun á jarð- og veðrakerfum af mannavöldum, með því að draga úr losun og auka bindingu kolefnis; 2) Verjast neikvæðum afleiðingum röskunar á veðrakerfum með aðlögun sem dregur úr tjóni og eflir viðnámþrótt.

Helstu ábendingar

  • Heildaryfirsýn, skýr markmið, stefnufesta og samræming aðgerða eru úrslitaatriði um hvort Ísland nái að takast af festu á við loftslagsvána. Efla þarf samstillingu innan hins opinbera, einkum milli ríkis og sveitarfélaga svo stórauka megi árangur á sviði loftslagmála, með auknu samráði ríkisvalds við sveitarfélögin á undirbúningsstigi aðgerða og stefnumörkunar.
  • Auka samráð ríkis við sveitarfélögin. Stórauka má árangur á sviði loftslagsmála með auknu samráði ríkisvalds við sveitarfélögin á undirbúningsstigi aðgerða og stefnumörkunar. Aðkoma stjórnvalda að mótun viðbragða við loftslagsvandanum er annars vegar í gegnum stefnumörkun, setningu laga og reglugerða á fjölda sviða sem hafa langvarandi áhrif á kolefnisbúskapinn en hins vegar í gegnum fjármögnun á sértækum loftslagsaðgerðum.
  • Mikilvægt er að opinberir aðilar sýni gott fordæmi í eigin rekstri. Nýsamþykkt loftslagsstefna Stjórnarráðsins er gott skref í þá átt. Mikilvægt er að framkvæmd hennar leiði til aukins gagnsæis og samræmis í mati á kolefnisspori vöru og þjónustu
  • Innleiða loftslagsáherslur að fullu inn í hagstjórn landins. Þó hagrænum stjórntækjum hafi þegar verið beitt til að hafa áhrif á kolefnisbúskapinn, þá eru enn umtalverð tækifæri fyrirliggjandi til kolefnishagstjórnar með sköttum og gjöldum og með ívilnunum.
  • Auka þarf upplýsingagjöf stjórnvalda til almennings. Stjórnvöld bera ríka upplýsingaskyldugagnvart almenningi um beinar og óbeinar ógnanir sem steðja að samfélaginu vegna loftslagsvár, um kolefnisspor Íslands og færar leiðir til að minnka það.
  • Meta þarf vænt loftslagsáhrif í upphafi allrar stefnumótunar og áætlanagerðar. Mat á áhrifum á kolefnisbúskap og viðnámsþrótt (seiglu) gagnvart loftslagsvá þarf að fara fram á frumstigi allrar stefnumótunar og áætlanagerðar á vegum ríkisins svo tryggja megi að nauðsynlegt tillit sé tekið til þessara þátta á loftslagsmarkmiðin. Farsælast er að slíkt mat sé samþætt annarri vinnu við stefnumótunina og að skýr grein verði gerð fyrir áhrifum valkosta á loftslag áður en afstaða er tekin til þeirra.
  • Allir ráðherrar þurfa að taka fullt tillit til loftslagsmála innan síns ráðuneytis. Farsælast að áðurnefnt mat sé samþætt annarri vinnu við stefnumótun og að skýr grein verði gerð fyrir áhrifum valkosta á loftslag áður en afstaða er tekin til þeirra. Allir ráðherrar þurfa þannig að tryggja að fullt tillit sé tekið til loftslagsmála á starfssviði síns ráðuneytis.
  • Vísinda- og tækniráð fari yfir ráðstöfun fjármuna til rannsókna og þátttöku í alþjóðlegu samstarfi. Vísinda- og tækniráð þarf að fara sérstaklega yfir ráðstöfun fjármuna til rannsókna og þátttöku í alþjóðlegu samstarfi í ljósi þeirra áskorana sem tengjast loftslagsvá og grípa til viðeigandi ráðstafana.
  • Setja þarf viðmið í skipulagsgerð um hvað sé ásættanleg loftslagsáhætta. Mikilvægt að opinberir aðilar setji viðmið í skipulagsgerð um ásættanlega áhættu þegar kemur að loftslagsvá. Mótun slíkra viðmiða kallar á virkt samráð ríkis og sveitarfélaga og samtal við haghafa.
  • Formfesta þarf ábyrgð á gerð sviðsmynda um framtíðarþróun. Framsetning sviðsmynda um framtíðarþróun helstu umhverfisþátta (s.s. hækkun sjávarborðs, úrkomuákefð og hitafar) er nátengd umræðunni um hvað sé viðunandi áhætta. Formfesta þarf hver skuli bera ábyrgð á slíkri sviðsmyndagerð á grundvelli rannsókna, vöktunar og bestu fáanlegrar þekkingar.
  • Efla þarf faglega ráðgjöf um tiltækar aðlögunarlausnir. Fagleg ráðgjöf til stjórnvalda um tiltækar lausnir verði efld, t.d. með því að Loftslagsráð leiti eftir ráðgjöf um náttúrulegar, tæknilegar, hagrænar eða félagslegar lausnir. Slík ráðgjöf verði unnin í samráði við leiðandi aðila í rannsóknum og nýsköpun og líti til reynslu annarra þjóða.
  • Tryggja þarf ítarlegar upplýsingar um kolefnisbúskap landsins. Undirstaða vandaðar stjórnsýslu á sviði loftslagsmála byggir á góðum upplýsingum um kolefnisbúskap landsins.
  • Birta þarf rauntímatölur losunar um leið og þær liggja fyrir. Mikilvægt að rauntímatölur um losun gróðurhúsalofttegunda séu birtar um leið og þær liggja fyrir í stað þess að bíða með það þangað til lokauppgjöri um losun og bindingu gróðurhúsalofttegunda er skilað til Loftslagssamnings Sþ og ESB.
  • Auka þarf samráð Loftslagsráðs og Vísindanefndar um áhrif loftslagsbreytinga. Auka þarf samráð Vísindanefndarinnar og Loftslagsráðs og áhersla lögð á að samfella í starfi Vísindanefndarinnar verði tryggð og henni verði gefið umboð til að vinna sviðsmyndir um framtíðarþróun helstu þátta sem taka þarf tillit til í ákvarðanatöku tengdri skipulagi og innviðauppbyggingu.
  • Tryggja þarf aðgengi Loftslagsráðs að upplýsingum eða valkostagreiningum. Tryggja þarf möguleika Loftslagsráðs til að kalla eftir upplýsingum og óska eftir greiningum á valkostum í stefnumörkun sem áhrif hefur á kolefnisbúskapinn eða tjónnæmi íslensks efnahagslífs.
  • Efla þarf faglega ráðgjöf til stjórnvalda um tiltækar lausnir. Fagleg ráðgjöf til stjórnvalda um tiltækar lausnir verði efld, t.d. með því að Loftslagsráð leiti eftir ráðgjöf um náttúrulegar, tæknilegar, hagrænar eða félagslegar lausnir. Slík ráðgjöf verði unnin í samráði við leiðandi aðila í rannsóknum og nýsköpun og líti til reynslu annarra þjóða.
  • Vinna þarf greiningu á breytingum sem eru að eiga sér stað á alþjóðavettvangi. Unnin verði greining á þeim breytingum sem eru að verða á alþjóðlegu og svæðisbundnu samstarfi í tengslum við loftslagsmál þar sem fleiri alþjóðasamningar fela nú í sér loftslagstengdar skuldbindingar en áður og þar sem rótgrónar alþjóðastofnanir á sviði samgangna, orkumála, heilbrigðis og efnahagsmála taka þessi mál æ fastari tökum.
  • Tækifæri fyrir Ísland fólgið í samstarfi Norðurlandanna um kolefnishlutleysi. Ísland er þáttakandi í ráðherrasamstarfi Norðurlandanna sem hyggjast ná forustu um viðfangsefni svo sem kolefnishlutleysi og fjármálaráðherrar hafa tekið upp samráð um kolefnishagstjórn á vettvangi Alþjóðabankans. Slíkt samstarf skapar tækifæri fyrir Ísland að láta til sín taka.
  • Stefna Íslands hvað varðar Heimsmarkmiðin þarf að móta viðbrög við loftslagsvá. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun tengjast flest ef ekki öll þáttum sem hafa áhrif á loftslag og aðlögun að afleiðingum loftslagsbreytinga. Nauðsynlegt er að stefna Íslands í því augnamiði að uppfylla Heimsmarkmiðin móti viðbrögð við loftslagsvá.