12. janúar 2023
Fulltrúar sem sátu fundinn: Halldór Þorgeirsson, Aðalheiður Snæbjarnardóttir, Auður Alfa Ólafsdóttir, Árni Finnsson, Guðmundur Þorbjörnsson Ragnhildur Freysteinsdóttir, Hafdís Hanna Ægisdóttir, Helga Ögmundsdóttir varafulltrúi, Hildur Hauksdóttir, Hjörleifur Einarsson, Hrönn Hrafnsdóttir, Ingibjörg Svala Jónsdóttir, Smári Jónas Lúðvíksson, og Valur Klemenson.
Gestir fundarins voru: undir lið tvö: a) frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, þau Halla Sigrún Sigurðardóttir skrifstofustjóri stefnumótunar og innleiðingar; Sigríður Svana Helgadóttir, settur skrifstofustjóri eftirfylgni og fjármála, Vanda Úlfrún Helsing, teymisstjóri loftslagsteymis, Steinar Kaldal teymisstjóri og Sigurður Ármann Þráinsson, náttúruverndar- og menningarminjateymi, b) frá matvælaráðuneytinu þau Björn Helgi Barkarson, skrifstofustjóri og Freydís Vigfúsdóttir, bæði á skrifstofu sjálfbærni og c) Snorri Sigurðsson, sviðsstjóri náttúruverndar hjá Náttúrufræðistofnun.
Fundurinn var haldinn í húsakynnum ASÍ, Guðrúnartúni 1, Reykjavík kl 14:00-16:05. Þórunn Wolfram framkvæmdastjóri skráði fundargerð.
Formaður bauð fólk velkomið og þakkaði Auði Ölfu Ólafsdóttur fulltrúa ASÍ fyrir að hýsa fundinn.
Fundargerð síðasta fundar
Samþykkt fundargerðar 59. fundar frestast til næsta fundar.
Loftslagsáherslur og líffræðileg fjölbreytni – samþætting markmiða og aðgerða.
Gestir fundarins kynntu helstu niðurstöður 15. aðildarríkjaþings samningsins um líffræðilega fjölbreytni (CBD COP15) og fóru yfir tengingar þeirra við meginniðurstöður COP27 þings loftslagssamningsins. Fram kom að ný stefnumótun og markmið samningsins, sem samþykkt voru á þinginu, draga glöggt fram mikilvægi loftslagsverndar, samhliða vernd líffræðilegrar fjölbreytni vistkerfa heimsins og þess megi sjá skýr merki í ákvarðanatöku víða. Nefnt var að til dæmis er mikil áhersla innan norræna samstarfsins á að flétta loftslagsáherslur og líffræðilega fjölbreytni þétt saman og það sama á við innan ESB. Þar voru sérstaklega nefnd drög að nýju regluverki sem fjalla um hvernig ESB hyggst votta, á samræmdan hátt, kolefnisupptöku úr andrúmslofti (e: EU Carbon Removal Certification).
Farið var yfir fyrirhugaða og fyrirliggjandi samþættingu loftslagsáherslna og verndar/eflingar líffræðilegrar fjölbreytni í stefnumörkun hérlendis og nýtt skipurit umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins kynnt stuttlega í því samhengi. Fram kom að stefna stjórnvalda í landgræðslu og skógrækt til 2031 (Land og Líf) og aðgerðaáætlun hennar, gefin út af matvælaráðherra í ágúst 2022, dregur skýrt fram mikilvægi loftslagsverndar og verndar líffræðilegrar fjölbreytni við endurheimt raskaðra vistkerfa, skipulag sjálfbærrar landnýtingar og skógræktar.
Rætt var að atvinnulífið og fjármálakerfið eru í meira mæli farið að taka mikilvægi verndar lífbreytileika inn í sínar aðgerðir, samhliða því að horfa til loftslagsverndar. Í því samhengi kynnti Aðalheiður Snæbjarnardóttir, fulltrúi Festu í Loftslagsráði stuttlega samtökin „Partnership for Biodiversity Accounting Financials“ (PBAF) sem ætlað er að hanna samræmdan mælikvarða um hvernig megi mæla áhrif fjármálayrirtækja á líffræðilega fjölbreytni, til viðbótar við samræmdar mælingar á kolefnislosun frá lána- og eignasöfnum þeirra (PCAF).
Umræður urðu um efni kynninganna og hvernig ráðið gæti stuðlað að jákvæðri samþættingu lífríkis- og loftslagsverndar.
Önnur mál og næstu fundir
Tillaga að fundaskipulagi til vorsins kynnt stuttlega.
Næsti fundur verður haldinn 26. janúar 2023, frá kl. 10:00-12:00.