6. janúar 2022
Mætt: Halldór Þorgeirsson, Brynhildur Davíðsdóttir, Ragnhildur Freysteinsdóttir, Hildur Hauksdóttir, Hrönn Hrafnsdóttir, Unnsteinn Snorri Snorrason, Sigurður Loftur Thorlacius, Auður Alfa Ólafsdóttir, Brynhildur Pétursdóttir, Árni Finnsson, Guðfinna Th. Aðalgeirsdóttir, Steingrímur Jónsson og Aðalheiður Snæbjarnardóttir.
Gestir fundarins: Gestir fundarins undir lið 2 voru Guðlaugur Þór Þórðarson, ráðherra, Sigríður Auður Arnardóttir, ráðuneytisstjóri og Halla Sigrún Sigurðardóttir, skrifstofustjóri skrifstofu loftslagsmála.
Fundurinn var haldinn í fjarfundi á Teams kl. 14-16.15. Guðný Káradóttir verkefnastjóri skráði fundargerð.
Fundargerð síðasta fundar
Fundargerð 46. fundar var samþykkt.
Heimsókn ráðherra umhverfis-, orku- og loftslagsmála
Ráðherra gerði grein fyrir sínum áherslum og væntingum til ráðsins. Við tók samtal milli fulltrúa í ráðinu og ráðherra, ráðuneytisstjóra og skrifstofustjóra um væntingar til ráðsins, stöðuskýrslu aðgerðaáætlunar og ákvarðanir og forsendur árangurs í loftslagsmálum. Fulltrúar í ráðinu sögðu frá málefnum sem þeim þykir brýnt að takast á við s.s. orkuskipti í samgöngum, beitingu hagrænna stjórntækja, réttlát umskipti, markaðskerfi fyrir kolefniseiningar, hlutverk sveitarfélaga, þörf fyrir grunnrannsóknir, metnaðarfyllri markmið, mótun atvinnustefnu og þörf fyrir aukið gagnsæi og skýrar upplýsingar.
Samtal og sókn – millilandasamgöngur
Fyrir fundinum lá samantekt um millilandasamgöngur sem ætlað er að skapa umræðugrundvöll fyrir fulltrúa í ráðinu um nálgun og ákvörðun um frekari greiningar og gagnaöflun fyrir viðburð undir merkjum Samtals og sóknar. Guðný Káradóttir kynnti efni samantektarinnar og síðan voru umræður. Óskað var eftir þátttöku fulltrúa í undirhóp sem vinnur með verkefnastjóra að því að meta þörf fyrir frekari greiningarvinnu og að gera tillögu að formi og dagskrá samtals og sóknar.
Starfsáætlun til vors
Rætt um starfsáætlun, helstu áherslur til vors og mögulegar breytingar á henni og þörf fyrir að hafa sveigjanleika í henni.
Önnur mál
Hrönn Hrafnsdóttir sagði frá því að Reykjavíkurborg hyggst sækja um að vera ein af 100 kolefnishlutlausum borgum í Evrópu árið 2030, sem er verkefni á vettvangi Evrópusambandsins.
Sagt var frá fyrirhuguðum fundi sem haldinn verður 19. janúar hjá ICCN, samstarfsvettvangi loftslagsráða sem Loftslagsráð á aðild að.
Vakin var athygli á dagskrá á janúarráðstefnu Festu sem haldin verður 27. janúar.