2021. Júlí. Þekking í þágu loftslagsmála. Greinargerð Loftslagsráðs.
Skilgreina og formfesta þarf hlutverk og ábyrgð: til að byggja upp og nýta vísindalega þekkingu í stefnumörkun og ákvarðanatöku í loftslagsmálum.
Sannreyndar fræðilegar niðurstöður undirstaða umræðu og ákvarðana:
Skapa þarf vettvang fyrir samskipti eða farveg fyrir umræðu og mótun stefnu sem byggir á vísindalegri nálgun.
Efla þarf rannsóknir á ýmsum sviðum loftslagsmála og bæta gagnasöfnun, sem nýtist bæði til að bæta skýrslugjöf Íslands á alþjóðavettvangi og við að dýpka skilning á mögulegum aðgerðum og áhrifum þeirra. Stórefla þarf aðkomu félags- og hugvísinda að rannsóknum og greiningum.
Skortur á heildstæðri loftslagsstefnu og skýrri framtíðarsýn: Heildstæð langtímasýn þjóðarinnar í loftslagsmálum og skýr loftslagsstefna þarf að liggja fyrir til að vísindin þjóni hlutverki sínu og að tryggt sé að samfella verði í rannsóknum og vöktun.
Kerfislæg umskipti eru nauðsynleg til að tryggja kolefnishlutlaust samfélag til framtíðar og til að aðlagast þeim breytingum sem verða vegna loftslagsbreytinga.
Til að slík umskipti verði réttlát þarf að vera til staðar öflug vísindaráðgjöf um áhrif umskiptanna í samfélaginu.
2020. Júní. Tillögur um framtíðarfyrirkomulag stjórnsýslu. Greinargerð Loftslagsráðs.
Skortur á skýrri sýn og árangursviðmiðum:
Það háir öllum aðgerðum stjórnvalda, fyrirtækja og heimila að ekki liggur fyrir skýr sýn um hvernig Ísland hyggst ná þeim markmiðum sem fram koma í alþjóðlegum skuldbindingum Íslands og hvernig íslenskt samfélag hyggst búa sig undir nýjan veruleika í grænu hagkerfi.
Óljóst markmið um kolefnishlutleysi: Markmið um kolefnishlutlaust Ísland er í hugum flestra óljóst.
Samhæfa þarf vinnu innan Stjórnarráðsins: og tryggja að loftslagsmál fái þann sess sem fylgir því að vera eitt helsta forgangsverkefni samfélagsins til næstu áratuga.
Virkt samspil á milli stjórnsýslustiga: Stjórnsýsla loftslagsmála er á tveimur stjórnsýslustigum. Forsenda árangurs er að samspil sé á milli stjórnsýslustiganna.
Vísindaráðgjöf: Tryggja þarf sess vísindaráðgjafar til grundvallar stefnumörkun.
Skýr ábyrgð einstakra ráðherra og skýr verkaskipting á milli ráðuneyta: Styrkja þarf pólitíska forystu í loftslagsmálum með skýrri verkaskiptingu ráðuneyta og skýrri ábyrgð einstakra ráðherra.
Formfesta samstarf milli ráðuneyta: Samstarf embættismanna þeirra ráðuneyta sem vinna að verkefnum á sviði loftslagsmála verði formfest og tryggt með virkum hætti að gagnsæi ríki um stefnumótun og aðgerðir á sviði loftslagsmála til að opna umræðu í samfélaginu.
Formleg fastanefnd ráðuneytisstjóra: Komið verði á fastanefnd ráðuneytisstjóra þeirra ráðuneyta er bera meginábyrgð á sviði loftslagsmála.
Skýr loftslagsstefna og heildstæð áætlun um eftirfylgni: Móta þarf skýra framtíðarsýn og tengja markmið í loftslagsmálum við breytta atvinnuhætti, öra tækniþróun og samfélagsbreytingar. Æskilegt er að slík sýn yrði mótuð með þverpólitískum hætti undir forystu Alþingis eða forsætisráðuneytis og staðfest af Alþingi.
Tryggja þarf aðkomu sveitarfélaga og samhæfða ákvarðanatöku: Tryggt verði að sveitarfélög eigi ávallt aðkomu að opinberri stefnumótun í loftslagsmálum og að ákvarðanir um aðgerðir ríkis og sveitarfélaga í loftslagsmálum séu samhæfðar.
Gagnsæ fjármálastjórnun loftslagsverkefna: Tryggja verður að skýrt sé hvernig fjármagni er forgangsraðað til einstakra verkefna og á hvaða forsendum. Tengja verður saman fjármagn og ábyrgð á verkefnum og forðast að útbúin verði of mörg kerfi til úthlutunar fjármagns.
Apríl 2020. Samantekt um kolefnishlutleysi – Greinargerð Loftslagsráðs.
Hvernig kolefnislausa framtíð viljum við móta? Spurningin er ekki hvort heldur hvernig kolefnishlutlausa framtíð við hyggjumst stefna á hérlendis.
Samstilling við hagstjórn og stefnumótun: Viðureignin við loftslagsvá kallar á samstillingu við hagstjórn og stefnumótun á flestum sviðum samfélagsins.
Þróa þarf vísitölur sem stuðla að (loftslagsjákvæðum) framförum.
Aukna verðmætasköpun á hvert losað tonn GHL: Hámarka þarf verðmætasköpun fyrir hvert tonn gróðurhúsalofttegunda sem losað er út í andrúmsloftið.
Nýta allar leiðir til að draga úr losun: Nota þarf öll tiltæk verkfæri í verkfærakistunni, svo sem hagræn stjórntæki (skatta, gjöld og ívilnanir); skipulag á landnotkun og byggð; lög og reglugerðir; þátttöku í svæðasamstarfi um viðskipti með losunarheimildir (EU ETS); endurheimt vistkerfa; kolefnisjöfnun; viðskipti með kolefniseiningar á innlendum markaði; þróun hringrásarhagkerfis; rannsóknir og nýsköpun og upplýsingu og fræðslu.
Loftslagsráð hvetur stjórnvöld til að lögfesta markmið Íslands um kolefnishlutleysi 2040.
Loftslagsráð hvetur stjórnvöld til að útfæra og varða framtíðarsýn um kolefnishlutlaust Ísland fyrir COP26.
2019. Júní. Uppbygging stjórnsýslu í loftslagsmálum. Álit Loftslagsráðs.
Heildaryfirsýn, skýr markmið, stefnufesta og samræming aðgerða: úrslitaatriði um hvort Ísland nái að takast af festu á við loftslagsvána.
Efla samstillingu innan hins opinbera, einkum milli ríkis og sveitarfélaga svo stórauka megi árangur á sviði loftslagmála, með auknu samráði ríkisvalds við sveitarfélögin á undirbúningsstigi aðgerða og stefnumörkunar.
Auka samráð ríkis við sveitarfélögin: Stórauka má árangur á sviði loftslagsmála með auknu samráði ríkisvalds við sveitarfélögin á undibúningsstigi aðgerða og stefnumörkunar.
Tvíþætt aðkoma stjórnvalda – stefnumótun, eftirfylgni og fjármögnun: Aðkoma stjórnvalda að mótun viðbragða við loftslagsvandanum er annars vegar í gegnum stefnumörkun, setningu laga og reglugerða á fjölda sviða sem hafa langvarandi áhrif á kolefnisbúskapinn en hins vegar í gegnum fjármögnun á sértækum loftslagsaðgerðum.
Aukin upplýsingagjöf stjórnvalda til almennings: Stjórnvöld bera ríka upplýsingaskyldu gagnvart almenningi um beinar og óbeinar ógnanir sem steðja að samfélaginu vegna loftslagsvár, um kolefnisspor Íslands og færar leiðir til að minnka það.
Loftslagsáhrif metin í upphafi allrar stefnumótunar og áætlanagerðar: Mat á áhrifum á kolefnisbúskap og viðnámsþrótt (seiglu) gagnvart loftslagsvá fari fram á frumstigi allrar stefnumótunar og áætlanagerðar á vegum ríkisins svo tryggja megi að nauðsynlegt tillit sé tekið til þessara þátta á loftslagsmarkmiðin.
Allir ráðherrar þurfa að taka fullt tillit til loftslagsmála innan síns ráðuneytis: Farsælast að áðurnefnt mat sé samþætt annarri vinnu við stefnumótun og að skýr grein verði gerð fyrir áhrifum valkosta á loftslag áður en afstaða er tekin til þeirra. Allir ráðherrar þurfa þannig að tryggja að fullt tillit sé tekið til loftslagsmála á starfssviði síns ráðuneytis.
Loftslagsráð geti óhindrað kallað eftir upplýsingum eða valkostagreiningum: Möguleikar Loftslagsráðs til að kalla eftir upplýsingum og óska eftir greiningum á valkostum í stefnumörkun sem áhrif hefur á kolefnisbúskapinn eða tjónnæmi íslensks efnahagslífs verði tryggðir.
Vísinda- og tækniráð fari sérstaklega yfir ráðstöfun fjármuna til rannsókna og þátttöku í alþjóðlegu samstarfi í ljósi þeirra áskorana sem tengjast loftslagsvá og grípi til viðeigandi ráðstafana.
2018. Desember. Öflug stjórnsýsla í loftslagsmálum. Álitsgerð Loftslagsráðs
Skýr stefnumörkun: Brýning til stjórnvalda um nauðsyn skýrrar stefnumörkunar til skamms- og langstíma í málaflokki loftslagsmála.
Víðtæk sátt mikilvæg: Mikilvægt er að ná sem víðtækastri sátt og stuðningi við loftslagsstefnu stjórnvalda til að hún lifi af stjórnarskipti og kosningar.
Grípa strax til aðgerða sem skila skjótum árangri og samhliða fara í langtímaskipulag: Brýnt er að grípa til beinna aðgerða sem skila skjótum árangri. Samhliða því þarf að taka stefnumarkandi ákvarðanir sem hrint geta af stað jákvæðri langtímaþróun sem skila mun enn frekari árangri til lengri tíma litið.
Samstarfsverkefni ríkisstjórnar og Alþingis: Nauðsynlegt að ríkisstjórn og Alþingi taki viðfangsefni föstum tökum og tryggi upplýsingaflæði til almennings, atvinnulífs og samtaka.
Virk samvinna innan ríkisstjórnar og Stjórnarráðsins lykilatriði: Loftslagsmál ganga þvert á verksvið flestra ráðuneyta og kalla því bæði á virka samvinnu og reglulegt samráð bæði á vettvangi ríkisstjórnar og innan Stjórnarráðsins.
Reglulegt almennt samráð: Kalla einnig á reglulegt samráð við sveitarfélög, atvinnulífið, vísindasamfélagið og almenning.
Samvinnan og samráðið þarf að vera markvisst, lausnarmiðað, skilvirkt, gagnsætt og byggt á upplýstu mati á áhættu og tækifærum.