Loftslagsráð og sendiráð Bretlands á Íslandi bjóða til málfundar um loftslagsmál þriðjudaginn 10. nóvember kl. 14:30 til 16:00 í beinu streymi á netinu.
Tilgangur fundarins er að hvetja til samstöðu og ábyrgðar stjórnmálamanna, atvinnulífs, sveitarfélaga, félagasamtaka og annarra þegar kemur að loftslagsmálum.
Þá er markmiðið einnig að auka umræðu og samvinnu í aðdraganda 26. loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna (COP26) sem haldin verður í Glasgow á næsta ári undir formennsku Bretlands í samstarfi við Ítalíu.
Árið 2020 markar þáttaskil þar sem aðildarríki Parísarsamningsins eiga að uppfæra loforð sín í loftslagsmálum fyrir lok ársins og standa skil á langtímastefnumótun sinni um kolefnishlutleysi. Heildarmarkmið samningsins er að takmarka hnattræna hlýnun við 1,5°C. Þetta markmið næst ekki nema hraðar verði brugðist við en gert hefur verið síðastliðna tvo áratugi.
Á málfundinum 10. nóvember verða umfjöllunarefni COP26 í forgrunni. Áhersla verður lögð á áhrif kórónuveirufaraldursins og loftslagsvæna endurreisn í kjölfar hans.
Gestir fundarins eru:
- Nick Bridge, sérstakur fulltrúi breska utanríkisráðherrans í loftslagsmálum kynnir áherslur gestgjafanna vegna COP26 ráðstefnunnar í Glasgow og ræðir mikilvægi umhverfisvænnar endurreisnar í kjölfar veirufaraldursins
- Sendiherra Bretlands á Íslandi.
- Fulltrúar Loftslagsráðs Íslands, Halldór Þorgeirsson formaður og Brynhildur Davíðsdóttir, varaformaður
- Rebecca Heaton, fulltrúi í loftslagsráði Bretlands, Climate Change Committee
- Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, mun fjalla um þátttöku Íslands í COP26, stefnu og aðgerðir íslensku ríkisstjórnarinnar sem miða að því að byggja sjálfbært samfélag til framtíðar með áherslu á kolefnishlutleysi og skuldbindingar Íslands gagnvart Parísarsamningnum um minnkun losunar.
Brynja Þorgeirsdóttir stjórnar umræðum.
Fundurinn verður í beinu streymi á netinu og fer fram á ensku. Hér er tengill á beina útsendingu.
Brýn viðfangsefni rædd í Glasgow
Bretland heldur loftslagsráðstefnuna í Glasgow 1.-12. nóvember 2021 í samstarfi við Ítalíu. Á ráðstefnunni koma ríki heims saman til að efla samtakamátt í loftslagsmálum. Brýnt er að bregðast við, hraða ferlinu og auka metnað svo ná megi kolefnishlutleysi samhliða því að efla viðnámsþrótt og endurreisn hagkerfisins. Í aðdraganda ráðstefnunnar og samhliða henni verður sjónum beint að eftirfarandi þáttum sérstaklega:
- Orkuskiptum
- Náttúrunni
- Umhverfisvænum samgöngum
- Grænni fjármögnun
- Aðlögun og viðnámsþrótti
Þörf á sterkari samstöðu
Parísarsamningurinn er eitt mikilvægasta verkfæri þjóða heims í baráttunni við loftslagsvána. Hann er drifinn áfram af því markmiði að halda hnattrænni hlýnun vel innan við 2°C og eins lítið umfram 1,5°C og kostur er. Það kallar á að hraðar verði brugðist við en gert hefur verið síðast liðna tvo áratugi svo ná megi settu marki. Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) hefur metið hver þróunin þurfi að verða svo ná megi markmiði Parísarsamningsins. Helminga þarf heimslosunina 2030 og síðan aftur á hverjum áratug til 2050. Ekki má láta staðar numið þegar kolefnishlutleysi er náð heldur þarf nettólosun að verða neikvæð tala (þ.e. binding verði meiri en losun) þannig að styrkur koldíoxíðs í andrúmsloftinu fari lækkandi eftir miðja þessa öld.
Sjálfbær samkeppni krefst kerfislægra breytinga
Ef ná á fram efnahagslegum bata þarf að gera stórtækar kerfislegar breytingar. Virkja þarf alla hagaðila til að vinna saman svo auka megi slagkraft og skriðþunga í breytingum í átt að sjálfbæru samfélagi. Þekkingarmiðlun leiðir til aukinnar nýsköpunar sem aftur getur leitt til lægri kostnaðar (hraðara viðbragðs) og sjálfbærni í samkeppnishæfum rekstri. Til að ná fram þessum markmiðum þarf að beina fjármagni í auknum mæli í græna uppbyggingu á alþjóðavísu.
Hvatt til aukins metnaðar og samstarfs
Fyrir lok þessa árs er gert ráð fyrir að aðildarríki Parísarsamningsins uppfæri loforð sín í loftslagsmálum sem miða að því að ná heildarmarkmiðum samningsins. Einnig skulu ríkin standa skil á langtímastefnumótun um kolefnishlutleysi. Þjóðir heims eru hvattar til að auka metnað og sókn í loftslagmálum og er unnið af krafti í aðdraganda ráðstefnunnar að því að skapa aukinn slagkraft og markvisst samstarf um sameiginleg markmið.
Í aðdraganda ráðstefnunnar er hvatt til samstarfs, ekki bara á milli ríkja heldur líka samstarfs við atvinnulíf, sveitarfélög, félagasamtök og aðra gerendur sem ekki tilheyra opinbera geiranum í aðildarríkjunum. Markmið bresku formennskunnar er að fá alla að borðinu, til að tryggja samtakamátt og samábyrgð. „Race to Zero“ er eitt þeirra verkefna sem bjóða þessum aðilum að ganga til samstarfs um að vekja athygli á brýnni þörf á víðtækri samstöðu um að ná markmiðum í loftslagsmálum.
Nánari upplýsingar veitir Guðný Káradóttir, gudny@loftslagsrad.is.