Metnaðarfyllri loftslagsmarkmið geta aukið hagvöxt ríkja verulega. Aðgerðir til að minnka útblástur geta þar með átt sinn þátt í því að auka velmegun til muna og minnka fátækt. Þetta sýnir nýleg skýrsla sem Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) hefur gefið út.
Því er stundum haldið fram að aðgerðir í loftslagsmálum séu dýrar og hafi þar með letjandi áhrif á hagkerfi ríkja og geti sligað ríkissjóði. Skýrsla OECD leiðir hins vegar í ljós að ef aðgerðir í loftslagsmálum, til að draga úr útblæstri, eru vel útfærðar geta þær leitt til atvinnuuppbyggingar og umsvifa, sem skila sér í aukinni velmegun.
Ríki heims eru nú í óða önn að vinna að nýjum markmiðum í loftslagsmálum, sem kallast landsframlög (NDC). Þessum markmiðum er skilað til loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna og eiga uppfærð markmið ríkjanna að liggja fyrir á næsta loftslagsþingi í Brasilíu í lok árs. Saman eiga markmið þjóðanna meðal annars að stuðla að hlýnun jarðar verði ekki meiri en ein og hálf gráða, miðað við hitastig fyrir iðnbyltingu.
Eins og fjallað hefur verið um í fyrri pistli hér á vefnum er ljóst að ríki heims eru sein til í að skila inn nýjum markmiðum og óvíst hverjar heimturnar verða áður en COP30 hefst. Skýrsluhöfundar OECD greina frá því að skýrslan sé sett fram ekki síst með það að leiðarljósi að hvetja ríki heims áfram með því að benda á tækifærin sem felast í því að setja fram metnaðarfull og fyrirsjáanleg markmið.
Skýrslan er unnin í samvinnu við Þróunaráætlun Sameinuðu þjóðanna (UNDP). Skýrslan er í raun eins konar leiðarvísir fyrir ríkisstjórnir um gerð aðgerðaráætlana í loftslagsmálum sem um leið laða að fjárfestingar og setja velsæld fólks í fyrsta sæti.
Ljóst er að fjárhagslegur skaði loftslagsbreytinga getur orðið gríðarlegur, með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á hagvöxt þjóða. Þessara áhrifa gætir þegar víða um heim, þar sem vaxandi öfgar í veðurfari eru farnir að hafa mikil efnahagsleg og félagsleg áhrif. Niðurstöður skýrslunnar benda til að aðgerðir í loftslagsmálum dragi ekki aðeins úr efnahagslegum skaða, heldur geti þær beinlínis leitt til fjárhagslegs ávinnings.
Niðurstaða skýrslunnar er að vel hannaðar, metnaðarfullar loftslagsaðgerðir, geti aukið hagvöxt á heimsvísu um 3% fyrir 2050 og um 13% fyrir lok aldarinnar.
Á undanförnum árum, eins og rætt er í skýrslunni, hefur upp að vissu marki tekist að ná hagvexti á heimsvísu án þess að auka jafnmikið útblástur gróðurhúsalofttegunda. Með öðrum orðum, það hefur tekist að aðskilja betur hagvöxt og útblástur. Þetta hefur verið markmiðið um langt skeið, en margir hafa haldið fram, ekki að ástæðulausu, að hagvöxtur, með auknum efnahagslegum umsvifum, muni alltaf auka útblástur.
Í skýrslunni er bent á að á árabilinu 2015 til 2022 hafi hagvöxtur í heiminum aukist um 22%, en losun hafi aukist um 7% á sama tíma. Losun jókst þar með mun minna en hagvöxtur, sem bendir til að það sé hægt að auka hagvöxt án þess að auka losun um of. En þjóðir heims þurfa að gera mun betur. Sjö prósent aukning í losun er of mikið. Losun þarf að dragast saman, ekki aukast.
Í því samhengi er bent á, að á þessu sama tímabili hafi um fjörutíu þjóðum tekist að auka hagvöxt og beinlínis draga úr losun á sama tímabili.
Umbreyting þjóðfélaga í átt lágkolefnishagkerfi kallar á fjárfestingar í nýrri tækni og nýjum viðskiptaháttum sem skapa ný störf og geta þar með aukið velmegun. Hin nýja tækni, eins og ýmis hrein orka sem nú þegar er komin á markað, getur auk þess verið ódýrari fyrir almenning og atvinnulíf, sem aftur skapar betri forsendur til vaxtar.
Auk þessara efnahagslegu jákvæðu áhrifa, þá benda skýrsluhöfundar einnig á það að geirnegld, skýr markmið í loftslagsmálum auki fyrirsjáanleika í atvinnulífinu. Það skapar kærkominn stöðugleika, sem er m.a. mikilvæg forsenda nýsköpunar. Óljós markmið og sveiflukennd geta minnkað hagvöxt all verulega, eða um 0,75% að mati höfunda fyrir 2030.
Í skýrslunni er líka rakið hvernig skýr og vel útfærð markmið geta líka haft ríkuleg jákvæð óbein áhrif á aðra þætti samfélagsins. Loftslagsmarkmið geta þannig farið vel saman við aukið orkuöryggi, betra aðgengi að rafmagni, minni fátækt og betri lýðheilsu.
Varðandi fátækt telja skýrsluhöfundar að hægt sé að lyfta um fimmtungi þeirra sem nú lifa undir fátækarmörkum upp úr fátækt, með því að samhæfa loftslagsmarkmið við markmið í þróunarmálum á heimsvísu. Ef markmiðin eru samhæfð við markmið um meira fæðuöryggi, og betra aðgengi að grunnþjónustu ættu um 90% þróunarríkja að geta aukið velmegun þegna sinna umtalsvert á næstu 25 árum, þannig að um 175 milljón manns yrði lyft upp úr fátækt.
Varðandi heilsufar er til dæmis bent á að aðgerðir í loftslagsmálum fari saman við aðgerðir til þess að sporna við loftmengun. Árið 2019 varð brennsla jarðefnaeldsneytis, með tilheyrandi loftmengun, valdur að ríflega fjórum milljónum ótímabærum dauðsföllum á heimsvísu. Loftslagsmarkmið koma í veg fyrir þessi dauðsföll og hafa auk þess alls kyns önnur jákvæð áhrif á heilsufar fólks, þar sem umhverfisvænni lífsstíll fer almennt saman við heilbrigðari lífsstíl.
Skýrsluhöfundar leggja til þrjár grunnleiðir til þess að ná markmiðum um minni losun og meiri hagvöxt. Fyrir það fyrsta, ættu þjóðir að samhæfa mun betur ríkisfjármál, peningamálastefnu, regluverk og loftslagsmál. Í annan stað er mikilvægt að beina einkafjárfestingum í átt til loftslagsmála og í þriðja lagi er mikilvægt að alþjóðlegt stuðningskerfi og lánasjóðir í þróunarmálum séu reknir með markmið í loftslagsmálum kyrfilega í huga.