Loftslagsráð tekið til starfa
8. október, 2024

Loftslagsráð hefur tekið aftur til starfa eftir endurskoðun sem lauk með útgáfu reglugerðar um ráðið (14. mars 2024) og skipan í ráðið . Fulltrúar voru flestir tilnefndir af hagaðilum en eftir skipan í ráðið eru þeir aðeins bundnir af eigin dómgreind. Reglugerðin tilgreinir einnig þau svið sem fulltrúar skulu sem heild hafa þekkingu á. Með þessu er skerpt á faglegum væntingum til ráðsins.

Hlutverk og viðfangsefni ráðsins eru óbreytt enda bundin í lögum um loftslagsmál. Á yfirstandandi þingi verður lagt fram frumvarp um breytingar á núgildandi lögum. Það má því gera ráð fyrir að starfsemi ráðsins muni taka breytingum þegar ný lög öðlast gildi.

Loftslagsráð hefur látið vinna greiningar og samantektir og ályktað á grundvelli þeirra. Fráfarandi ráð sendi frá sér uppgjör 15. júní 2023. Þar var meðal annars bent á að markviss loftslagsstefna með tímasettum og mælanlegum markmiðum hafi ekki verið mótuð. Það væri því óljóst hvernig Ísland hyggst ná alþjóðlegum og innlendum skuldbindingum sín um um samdrátt í losun fyrir 2030.

Stjórnvöld hafa nú kynnt nýja aðgerðaráætlun í loftslagsmálum. Loftslagsráð er að fara yfir innihald hennar og að meta hvort í henni felist skýrari loftslagsstefna með tímasettum og mælanlegum markmiðum. Þegar niðurstöður liggja fyrir mun ráðið tjá sig opinberlega og koma með ábendingar um hvernig auka megi og hraða árangri aðgerða.

Ráðið er einnig að meta stöðuna varðandi aðlögun að veðurfarsbreytingum. Fyrsta skrefið er að fara yfir samantekt Vísindanefndar um loftslagsmál sem kom út í árslok 2023 á helstu ógnum af röskun loftslags og þeim viðbrögðum sem grípa þarf til. Í því ljósi verður farið yfir mótun aðlögunarstefnu og bent á hugsanlegar leiðir til að draga úr tjónnæmi íslensks þjóðfélags og efnahags og efla viðnámsþrótt.

Ráðið mun einnig halda áfram vinnu á sviðum þar sem það hefur þegar látið til sín taka og  taka ný viðfangsefni fyrir.  

Á myndina vantar Halldór Björnsson.