Umfjöllunarefni
Í tilefni af viðvörun IPCC ítrekar Loftslagsráð fyrri áskorun til íslenskra stjórnvalda um að framfylgja af mun meiri festu þeim ákvörðunum sem þegar hafa verið teknar og hraða frekari stefnubreytingum og aðgerðum í loftslagsmálum.
Helstu ábendingar
- Markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir 2030 eru óljós og ófullnægjandi. Nauðsynlegt er að stjórnvöld skýri og útfæri þessi markmið nánar.
- Framkvæmd aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum er ómarkviss eins og Loftslagsráð hefur bent á. Auka þarf samdrátt hratt með samstilltu og vel skipulögðu átaki allra.
- Til að ná því markmiði þarf að fara af undirbúnings- á framkvæmdastig og meta árangur með mun öflugri greiningum en nú er beitt.
- Loftslagsvæn framtíðarsýn kallar á nýjar áherslur í fjárfestingum og nýsköpun sem leggja mun grunn að verðmætasköpun í kolefnishlutlausu hagkerfi.
- Ráðast þarf í kerfislægar breytingar svo sem með umbyltingu orkukerfa, samgöngukerfa, skipulags borga, fjármálakerfa sem og í opinberri hagstjórn. Stjórnvöld verða án tafar að skapa umgjörð sem stuðlar að jákvæðum breytingum með markvissri stefnumótun.
- Mikilvægt er að stjórnvöld nýti þá víðtæku reynslu og þekkingu sem til staðar er hér á landi sem og erlendis til að hraða aðgerðum. Líta má á mat 3. vinnuhóps IPCC sem efnivið sem nýta á hér á landi til að auka árangur í baráttunni við loftslagsvána.