Þótt viðræður um alþjóðlega samninga um loftslagsmál fari fram á vettvangi Rammasamnings S.þ. um loftslagsbreytingar, eru loftslagsmál einnig fléttuð inn í starfsemi annarra alþjóðastofnanna með margvíslegum hætti.
Eitt dæmi um það eru Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, sem að leiðtogar heims komu sér saman um á vettvangi Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna árið 2015. Heimsmarkmiðin eru ekki hefðbundinn alþjóðasamningur með þjóðréttarlegar skuldbindingar, heldur sameiginleg yfirlýsing þjóðarleiðtoga um hvert skuli stefna og hvaða þætti þurfi að leggja áherslu á til að tryggja sjálfbæra framtíð. Heimsmarkmiðin eru ákall, ekki aðeins til stjórnmálaleiðtoga, heldur til allra þeirra sem geta haft áhrif, um að haga sinni starfsemi á þann hátt að hún leggi sem mest af mörkum til þessara markmiða. Þannig hafa ekki aðeins ríkisstjórnir heims horft til heimsmarkmiðanna heldur hafa þau líka fléttast inn í stefnumörkun sveitarfélaga, fyrirtækja, menntastofnanna og félagasamtaka.
Eitt af markmiðunum 17, markmið númer 13, snýr sérstaklega að aðgerðum í loftslagsmálum. Þar er m.a. hvatt til þess að auka forvarnir við vá af völdum loftslagsbreytinga, að loftslagsmál verði samþætt inn í alla áætlanagerð og stefnumótun og að menntun verði aukin til að vekja fólk til meðvitundar um loftslagstengd málefni og hvað sé hægt að gera. Þá er sérstök áhersla á mikilvægi þess að styrkja þróunarríki í viðleitni þeirra til að takast á við loftslagsvandann.
Auk markmiðs 13 þá tengjast loftslagsmál mörgum öðrum markmiðum eins og t.d. markmiði 7 um hreina orku, markmiði 12 um ábyrga neyslu og framleiðslu og markmiði, 14 um líf í vatni og súrnun sjávar og 15 um líf á landi.
Hér má kynna sér heimsmarkmiðin á íslensku og hér á ensku.