4. nóvember 2025
Fulltrúar sem sátu fundinn: Halldór Þorgeirsson, Brynhildur Davíðsdóttir, Auður Alfa Jónsdóttir, Bjarni Diðrik Sigurðsson, Bjarni Már Magnússon, Helga Jóhanna Bjarnadóttir, Helga Ögmundardóttir og Ingibjörg Svala Jónsdóttir.
Fundurinn var haldinn á Veðurstofu Íslands, Bústaðarvegi 7, 105 Reykjavík, fundarherbergi Öskjuhlíð.
Anna Sigurveig Ragnarsdóttir, framkvæmdastjóri skráði fundargerð.
Fundargerð seinasta fundar
Fundargerð 88. fundar sem haldinn var 4. nóvember var samþykkt án athugasemda.
Aðlögunaráætlun
Fyrsta aðlögunaráætlun Íslands vegna áhrifa loftslagsbreytinga hefur verið í undirbúningi undanfarin ár. Áætlunin mun samanstanda af samþykktu safni aðlögunaraðgerða fyrir tímabilið 2026-2030. Áætlað er að ráðherra kynni áætlunina í desemberbyrjun.
Óskað hefur verið eftir áliti ráðsins á forgangsröðun fyrstu aðgerða og áætluninni í heild sinni. Barst ráðinu tillaga verkefnastjórnar að aðlögunaráætlun, 14. nóvember auk minnisblaðs með ítarefni vegna tillögu verkefnastjórnar þann 19. nóvember.
Rætt var um efnistök aðlögunaráætlunar stjórnvalda og viðbrögð ráðsins. Ákveðið var að unnið yrði að áliti um aðlögunaráætlun sem tekin yrði fyrir aftur á fundi ráðsins í desember og samþykkt og gert opinbert í byrjun nýs árs.
Mótun atvinnustefnu
Á fundinum var rætt um möguleg viðbrögð Loftslagsráðs við mótun atvinnustefnu, sem samkvæmt upplýsingum frá forsætisráðuneyti lýsir því hvernig stjórnvöld vinna með atvinnulífinu að aukinni verðmætasköpun í jafnvægi við samfélag, umhverfi og innviði.
Á 88. fundi ráðsins 4. nóvember var samþykkt minnisblað til forsætisráðuneytis vegna mótunar atvinnustefnu. Drög forsætisráðuneytis að atvinnustefnu voru síðan birt í samráðsgátt 14. nóvember.
Á þessum fundi var farið yfir efnistök í þeim drögum. Ákveðið var að ráðið myndi bregðast við með áliti sem unnið verður að á næstu vikum og gert opinbert í byrjun nýs árs. Frumdrög munu liggja fyrir næsta fundi.
COP30 í Belem
Þrítugasta aðildarríkjaþing loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna var haldið í Belem í Brasilíu 10. til 21. nóvember.
Framkvæmdarstjóri sótti fyrri viku þingsins. Meginmarkmið ferðarinnar var að taka þátt í dagskrá Alþjóðasamtaka Loftslagsráða og tengjast öðrum ráðum nánari böndum. Var ferðin jafnframt nýtt til að styrkja starf ráðsins og tengslanet þess.
Þorgerður María sótti einnig viðburði á vegum Alþjóðasamtaka Loftslagsráða en hún tók
þátt í þinginu fyrir hönd Landverndar.
Önnur mál
Skýrsla verkefnisstjórnar loftslagsaðgerða 2025
Sagt var frá því að skýrsla verkefnisstjórnar loftslagsaðgerða hefur verið gerð aðgengileg á vef Stjórnarráðsins.
Stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar
Loftslagsráði hefur borist gagnabeiðni vegna stjórnsýsluúttektar Ríkisendurskoðunar um loftslagsmál. Ráðinu er veittu frestur til 15. desember til að svara spurningum stofnunarinnar.
