Fundargerð 86. fundar Loftslagsráðs

2. október 2025


Fulltrúar sem sátu fundinn: Halldór Þorgeirsson, Auður Alfa Ólafsdóttir, Bjarni Már Magnússon, Halldór Björnsson, Helga Jóhanna Bjarnadóttir, Helga Ögmundardóttir, Þorgerður María Þorbjarnardóttir.

Fundurinn var haldinn á Veðurstofu Íslands, Bústaðarvegi 7, 105 Reykjavík, fundarherbergi Undirheimar.
Anna Sigurveig Ragnarsdóttir, framkvæmdastjóri skráði fundargerð

Mótun atvinnustefnu: Kynning fulltrúa stjórnarráðsins

Í sumar voru kynnt í samráðsgátt áform stjórnvalda um atvinnustefnu Íslands, sem samkvæmt upplýsingum frá forsætisráðuneyti lýsir því hvernig stjórnvöld vinna með atvinnulífinu að aukinni verðmætasköpun í jafnvægi við samfélag, umhverfi og innviði. Við framlagningu áformanna var kallað eftir endurgjöf um áform ríkistjórnarinnar og óskað eftir svörum við eftirfarandi spurningum:

    1. Hver ættu helstu markmið og lykilmælikvarðar að vera varðandi þróun atvinnulífs næstu tíu ár?
    2. Til hvaða aðgerða geta stjórnvöld gripið til að efla útflutning, fjölga vel launuðum störfum og auka framleiðni vinnuafls næstu tíu ár?
    3. Hvaða útflutningsgreinar, þar sem framleiðni vinnuafls er há og loftslagsáhrif eru takmörkuð, geta vaxið mest á næstu tíu árum og náð árlegum útflutningi sem nemur tugum milljarða króna?

Þann 4. september boðaði forsætisráðuneytið til morgunfundar um mótun nýrrar atvinnustefnu.

Loftslagsráð óskaði fyrr í haust eftir frekari kynningu og samtali um áherslur atvinnustefnunnar og tengingu hennar við markmið í loftslagsmálum. Á fundinum fóru fulltrúar stjórnarráðsins yfir mótun atvinnustefnu, tengingu atvinnustefnu við loftslagsmálin og áttu samtal við loftslagsráð.

Fulltrúar stjórnarráðsins voru afar jákvæðir um samstarf við Loftslagsráð við mótun atvinnustefnu og mun skrifstofa ráðsins vera í sambandi við aðstoðarmann ríkisstjórnarinnar um ábendingar ráðsins til þess sem nýst gætu við mótun stefnunnar. Möguleg aðkoma ráðsins verður rædd á næsta fundi.

Landsframlag Íslands til Loftslagssamningsins

Ráðherra kynnti nýlega landsframlag Íslands til ársins 2035 í samráðsgátt stjórnvalda.

Jafnframt hefur landsframlag Íslands til 2030 verið endurskoðað, þar sem í ljós hefur komið að ekkert samkomulag er milli Íslands, Noregs og ESB um sameiginlegar skuldbindingar gagnvart Parísarsamningnum.

Bjarni Már Magnússon, var beðinn um vinna samantekt fyrir ráðið um eðli samstarfsins milli ESB og Íslands og hvað þessar breytingar þýða lögfræðilega, bæði hér heima og gagnvart Parísarsamningum.

Á stefnumótunarfundi Loftslagsráðs þann 26. september fjallaði Bjarni Már um málið út frá  lagalegum sjónarmiðum og íslensku samhengi. Í framhaldinu voru umræður og ákveðið var að Bjarni Már myndi taka saman helstu áhersluatriði í minnisblaði til afgreiðslu á fundi ráðins 2. október. Samantektin yrði svo send til umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og utanríkisráðherra.

Drögum að minnisblaði var dreift fyrir fundinn. Samþykkt var að minnisblaðið yrði sent á föstudag 3. október, með lítilsháttar breytingum og álitsgerð Bjarna Más send sem viðhengi. Jafnframt var bætt við hvatningu til ráðherra að gera grein fyrir þeirri stöðu sem upp er komin.

Önnur mál

Annað var ekki til umræðu.