Fundargerð 76. fundar Loftslagsráðs

29. nóvember 2024

Fulltrúar sem sátu fundinn: Halldór Þorgeirsson, Brynhildur Davíðsdóttir, Auður Alfa Ólafsdóttir, Bjarni Diðrik Sigurðsson, Bjarni Már Magnússon, Halldór Björnsson, Helga Jóhanna Bjarnadóttir, Helga Ögmundardóttir, Þorgerður María Þorbjarnardóttir.

Fundurinn var haldinn í Veðurstofu Íslands, kl. 10:00-12:10. Anna Sigurveig Ragnarsdóttir, framkvæmdastjóri skráði fundargerð.

Fundargerð seinasta fundar

Fundargerð 75. fundar, sem haldinn var 8. nóvember var samþykkt.

Hagrænir hvatar og gjaldtaka í samhengi loftslagsmarkmiða

Á seinasta fundi Loftslagsráðs 8. nóvember komu fram áhyggjur af því að stjórnarfrumvarp um kílómetragjald á ökutæki, sem þá lá fyrir Alþingi, myndi leiða til aukningar í olíunotkun í samgöngum og þannig vinna gegn loftslagsmarkmiðum. Nú liggur fyrir að boðuðum breytingum hefur verið frestað til næstu áramóta og kallaði efnahags- og viðskiptanefnd eftir því að frumvarpið yrði undirbyggt með frekara samráði og greiningu og áhrifamati og vísaði málinu aftur til ríkisstjórnar. Samstaða var um að þessi staða kalli á greiningu og vel undirbyggð viðbrögð ráðsins, hugsanlega í samstarfi við aðra aðila.

Á fundinum var farið yfir feril fyrirhugaðar lagasetningar um breytingar á gjaldtökukerfi ríkissjóðs vegna ökutækja og eldsneytis og þau gögn sem sett voru fram opinberlega í samráðsgátt. Ákveðið var að óska eftir frekari gögnum frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu áður en lengra er haldið og verður málið tekið upp að nýju á fundi ráðsins þann 13. desember.

Þessi staða skapar tækifæri fyrir ráðið að fylgja eftir ákalli í álitin ráðsins um aðgerðaáætlun í loftslagsmálum um að samhæfa þurfi framkvæmd loftslagsstefnu annars vegar og stefnumið í ríkisfjármálum hins vegar.

Niðurstaða COP29 og þýðing hennar fyrir Ísland

Aðildaríkjaþing loftslagssamningsins í Baku er nýafstaðið. Loftslagsráð tók ekki þátt í þetta skipti en fylgdist vel með framvindu. Fundur formanna Loftslagsráða var haldinn þann 14. nóvember en ekki var boðið upp á fjartengingu eins og til stóð. Framhaldsfundur var haldinn miðvikudaginn 27. nóvember og voru formaður og framkvæmdastjóri Loftslagsráðs viðstaddir þann fund.

Tveir fulltrúar í loftslagsráði fóru á aðildarríkjaþingið í Baku. Á fundinum var rætt um þingið og hvernig niðurstöður þess tengjast starfsemi ráðsins.

Í byrjun árs 2025 ber aðildarríkjum loftslagssamningsins að skila nýju landsframlagi (e. Nationally Determined Contribution) til samningsins. Að þessu sinni skulu markmið ná til ársins 2035 og NDC lýsa einnig þeim leiðum sem ríki kjósa að fara að markmiðum sínum. Loftslagsráð telur þetta eitt mikilvægasta verkefni íslenskra stjórnvalda á næsta ári.

Önnur mál

Fleira var ekki til umræðu