20. september 2024
Fulltrúar sem sátu fundinn: Halldór Þorgeirsson, Brynhildur Davíðsdóttir, Helga Jóhanna Bjarnadóttir, Stefán Þór Eysteinsson, Auður Alfa Ólafsdóttir, Bjarni Diðrik Sigurðsson, Bjarni Már Magnússon, Þorgerður María Þorbjarnardóttir, Helga Ögmundardóttir, Ingibjörg Svala Jónsdóttir.
Fundurinn var haldinn í Veðurstofu Íslands, kl. 10:00-12:15.
Anna Sigurveig Ragnarsdóttir, framkvæmdastjóri skráði fundargerð.
Fundargerð seinasta fundar
Fundargerð 71. fundar, sem haldinn var 4. september var samþykkt án breytinga.
Samþykkt var sú vinnuregla að fulltrúar fái send drög að fundargerð um leið og hún er tilbúin og fái þá viku til að koma með athugasemdir. Ef engar athugasemdir berast á viku þá skoðast fundargerðin sem samþykkt. Ef hins vegar athugasemdir berast, verður fundargerðin tekin til samþykktar á næsta fundi ráðsins.
Starfsreglur Loftslagsráðs
Loftslagsráð setti sér starfsreglur árið 2020 sem ber að endurskoða reglulega. Á fundinum var farið yfir núgildandi starfsreglur og gerðar lítilsháttar breytingar á reglunum m.a. í þeim tilgangi að færa þær til samræmis við breytingar sem hafa orðið seinustu ár á mönnun skrifstofu loftslagsráðs auk nýlegrar reglugerðar um loftslagsráð. Í því sambandi var m.a. bætt við texta til að skerpa á auknu sjálfstæði ráðsins og ákvæði til að skýra aðkomu og hlutverk varamanna.
Starfsreglurnar voru samþykktar með fyrrnefndum breytingum en verða teknar upp að nýju þegar ný heildarlög um loftslagsmál hafa verið samþykkt á þingi.
Aðlögunaráætlun
Haustið 2022 skipaði ráðherra stýrihóp til að vinna tillögur fyrir gerð Landsáætlunar um aðlögun að loftslagsbreytingum. Hópurinn skilaði tillögum sínum í september 2023 þar sem meðal annars var lögð áhersla á fjórar forgangsaðgerðir; loftslagsatlas, vöktunaráætlun, loftslagsáhættuvísa, og tilraunaverkefni um gagnagátt fyrir náttúruvá.
Halla Sigrún Sigurðardóttir og Magnús Örn Sigurðsson kynntu vinnu við aðlögunaráætlun. Í kjölfarið var rætt um stöðuna í málaflokknum og hvernig aðkoma loftslagsráðs gæti stuðlað að auknum árangri á þessu sviði.
Stefnt er að því að verkefnastjórn afgreiði fyrstu útgáfu slíkrar áætlunar fyrir sumarið 2025.
Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum
Framhald umræðu sem hófst á seinasta fundi um með hvaða hætti ráðið telur gagnlegt að bregðast við aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.
Á seinasta fundi ráðsins var ákveðið að leggja kraft í að ljúka greiningarvinnu sem mun auðvelda ráðinu að meta stöðu losunar miðað við alþjóðlegar skuldbindingar og markmið. Farið var yfir stöðuna á þessari vinnu og rætt um viðbrögð loftslagsráðs. Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum verður meginviðfangsefni næsta fundar þann 4. október n.k.
Frétt um starfsemi ráðsins
Ákveðið var að unnin verður frétt sem m.a. byggir á fyrri ályktunum ráðsins. Lögð verði áhersla á mikilvægi stefnu, markmiða og aðgerða til að ná árangri í loftslagsmálum og skýrrar eftirfylgni.
Önnur mál, fundaplan og næsti fundur
Næsti fundur er áætlaður 4. október kl. 10:00 -12:00