Fundargerð 71. fundar Loftslagsráðs

4. september 2024

Fulltrúar sem sátu fundinn: Halldór Þorgeirsson, Brynhildur Davíðsdóttir, Halldór Björnsson, Helga Jóhanna Bjarnadóttir, Stefán Þór Eysteinsson, Auður Alfa Ólafsdóttir, Bjarni Már Magnússon, Þorgerður María Þorbjarnardóttir, Helga Ögmundardóttir, Ingibjörg Svala Jónsdóttir.

Bjarni Diðrik Sigurðsson tengdist fundinum með Teams fyrsta klukkutímann.

Fundurinn var haldinn í Veðurstofu Íslands, kl. 10:00-15:30.
Anna Sigurveig Ragnarsdóttir framkvæmdastjóri skráði fundargerð.

Opnun

Fundað var hjá Veðurstofunni og nýr framkvæmdastjóri, Anna Sigurveig er tekin til starfa.

Þeir meðlimir ráðsins sem sátu ekki fund þess í júní kynntu sig með því að fara yfir sinn bakgrunn, þekkingu og reynslu í ljósi hæfniviðmiða í reglugerð um Loftslagsráð. Síðan lýstu þeir sýn sinni á áherslur í starfi ráðsins næstu fjögur árin einkum á næsta starfsári.

Anna Sigurveig kynnti sig og sinn bakgrunn og fór yfir hlutverk og verkefni ráðsins skv. lögum og í reglugerð.

Forstjóri Veðurstofunnar, Hildigunnur Thorsteinsson bauð fulltrúa velkomna til Veðurstofunnar. Loftslagráð er verkefni á fjárlögum en unnið er að því Veðurstofan verði fjárhagslegur vistunaraðili verkefnisins. Með því fær skrifstofa Loftslagsráðs aðstöðu hjá Veðurstofunni og helstu stoðþjónustu.

Fundargerð síðasta fundar

Fundargerð 70. fundar frá 12. júní var samþykkt með lítilsháttar breytingu.

Ný og uppfærð aðgerðaáætlun í loftslagsmálum

Þann 14. júní var kynnt ný aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Áætlunin er uppfærsla eldri aðgerðaráætlunar sem fyrst var gefin út árið 2018 og síðan uppfærð árið 2020. Uppfærslan nú inniheldur 150 loftslagsaðgerðir og -verkefni sem miða annars vegar að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka bindingu kolefnis auk verkefna sem ætlað er að styðja við innleiðingu aðgerða.

Áætlunin er til umsagnar í Samráðsgátt stjórnvalda þar sem almenningi, félagasamtökum og hagaðilum gefst kostur á að koma með umsagnir og ábendingar til 22. september.

Á fundinum kynntu Halla Sigrún, Magnús Örn og Elín Björk, fulltrúar frá umhverfis- orku og loftslagsráðuneytinu helstu drætti, forsendur og vinnulag við áætlunina. Jafnframt var komið inn á eftirfylgni við aðgerðir og næstu skref en nýlega var skipuð ný verkefnastjórn um aðgerðir í loftslagsmálum.

Að kynningu lokinni hóf Loftslagsráð umræðu um efni aðgerðaáætlunar og reifaði með hvaða hætti ráðið gefi viðbrögð við áætluninni.

Varaformaður lýsti greiningarvinnu sem mun  auðvelda  ráðinu að leggja mat á stöðuna í losun miðað við innlendar og alþjóðlegar skuldbindingar til ársins 2030 sem væri fyrsta skrefið í átt að sjálfstæðu stöðumati sem byggði ekki einungis á opinberum greiningum. Þannig mætti öðlast dýpri skilning á hvaða aðgerða er þörf og greina samhengi vænts árangurs til skemmri tíma (2030) og lengri tíma (2040).

Ákveðið að setja kraft í að ljúka þessari vinnu og að fá aðila með þekkingu og reynslu á myndrænni framsetningu til að vinna að framsetningu niðurstaðna.

Áherslur og forgangsröðun á starfsárinu

Ráðið hélt áfram umræðu um áherslur og forgangsröðun ráðsins á næsta starfsári. Viðburðaríkur vetur er fram undan og umræða hélt áfram bæði um forgangsröðun viðfangsefna og með hvaða hætti ráðið ætti að vinna að markmiðum.

Önnur mál, fundaplan og næsti fundur

Ákveðinn var að ráðið hittist aftur að tveimur vikum liðnum.

Sendur verður tölvupóstur svo hægt verði að setja fram fundaplan fram að áramótum.