2. mars 2023
Fulltrúar sem sátu fundinn: Halldór Þorgeirsson, Brynhildur Davíðsdóttir, Hildur Hauksdóttir, Aðalheiður Snæbjarnarsdóttir, Valur Klemensson Árni Finnsson, Guðmundur Þorbjörnsson, Ragnhildur Freysteinsdóttir, Hafdís Hanna Ægisdóttir, Auður Alfa Ólafsdóttir, Hjörleifur Einarsson, Ingibjörg Svala Jónsdóttir og Páll Björgvin Guðmundsson varafulltrúi.
Fundurinn var haldinn í húsakynnum Landsbankans, Austurstræti 11, kl. 14:00-16:00. Þórunn Wolfram framkvæmdastjóri skráði fundargerð.
Formaður bauð fólk velkomið og þakkaði Aðalheiði Snæbjarnardóttur fulltrúa Festu fyrir að hýsa fundinn.
Fundargerð síðasta fundar
Samþykkt fundargerðar 63. fundar frestast til næsta fundar.
Umræðuplagg um kolefnisjöfnun, kolefnishlutleysi og losun frá landi
Formaður og framkvæmdastjóri kynntu stuttlega innihald fyrirliggjandi draga að umræðuplaggi um kolefnisjöfnun, kolefnishlutleysi og losun frá landi. Frá árinu 2020 hefur ráðið birt nokkur álit og greinargerðir um málaflokkana, stöðu þeirra og framtíðarsýn. Fleiri aðilar, bæði innan stjórnsýslunnar sem og utan hennar hafa unnið stefnumótandi vinnu byggt á forsendum kolefnisjöfnunar og kolefnishlutleysis og sett af stað verkefni því tengt.
Rætt var hvort ástæða væri fyrir ráðið að taka þessi umfjöllunarefni sérstaklega fyrir eða hvort það væri ákjósanlegra að fara markvisst yfir alla málaflokka aðgerðaáætlunar stjórnvalda í loftslagsmálum, draga saman allt efni sem Loftslagsráð hefur unnið um hvern og einn þeirra og vinna heildræna sýn ráðsins, út frá núverandi stöðu loftslagsmála á Íslandi. Ákveðið að framkvæmdastjórn ráðsins fari yfir niðurstöður umræðna fundarins og undirbúi möguleg næstu skref vinnunnar, til umfjöllunar á næsta fundi þess.
Önnur mál og næsti fundur
Rætt var um niðurstöður úr stefnumótunarvinnu ráðsins frá síðasta hausti og hvernig sú vinna verður tekin áfram inn í starfsemi ráðsins og skrifstofu þess. Ákveðið að skrifstofan útfæri tillögu til að leggja fyrir, til umræðu og samþykktar, á næsta fundi ráðsins.
Næsti fundur er áætlaður 23. mars kl. 14:00-16:00