13. febrúar 2023
Fulltrúar sem sátu fundinn: Halldór Þorgeirsson, Brynhildur Davíðsdóttir, Hildur Hauksdóttir, Guðmundur Þorbjörnsson, Valur Klemensson, Ragnhildur Freysteinsdóttir, Hafdís Hanna Ægisdóttir, Hjörleifur Einarsson, Ingibjörg Svala Jónsdóttir og Smári Jónas Lúðvíksson.
Gestir fundarins voru undir lið tvö: frá Orkustofnun, þau Halla Hrund Logadóttir Orkumálastjóri og Jón Ásgeir Haukdal verkefnastjóri yfir orkuspá. Frá Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti, þær Halla Sigrún Sigurðardóttir skrifstofustjóri stefnumótunar og innleiðingar, Vanda Ú. Helsing teymisstjóri og Anna Sigurveig Ragnarsdóttir sérfræðingur, loftslagsteymi. Frá Umhverfisstofnun, þær Sigrún Ágústdóttir forstjóri, Elva Rakel Jónsdóttir sviðsstjóri loftslags og hringrásarhagkerfis og Sigríður Rós Einarsdóttir, loftslagsteymi.
Fundurinn var haldinn í húsakynnum Umhverfisstofnunar Suðurlandsbraut 24, Reykjavík kl. 13:00-14:00. Þórunn Wolfram framkvæmdastjóri skráði fundargerð.
Fundargerð síðasta fundar
Samþykkt fundargerðar 61. fundar, frestast til næsta fundar.
Formlegt mat á áætluðum árangri loftslagsaðgerða
Haldið var áfram með umræðu frá síðasta fundi ráðsins um formlegt mat á áætluðum árangri loftslagsaðgerða út frá framreikningum sem settir verða fram í skýrslunni Stefnur og aðgerðir og framreiknuð losun Íslands (e. PaMs and projections) sem nú er í undirbúningi. Markmið ráðsins er að öðlast skilning á þeim framförum í framreikningum á heildarlosun frá Íslandi sem átt hafa sér stað á því ári sem liðið hefur frá því að skýrsla síðastliðins árs var í undirbúningi. Orkumálastjóri kynnti stuttlega nýlegar skipulagsbreytingar hjá Orkustofnun sem ætlað er að endurspegla áherslur orkustefnu Íslands og auðvelda aðgengi að raunupplýsingum um innlenda orku í nútíð og framtíð. Hún kynnti einnig sýn Orkustofnunar á núverandi forsendum fyrir framreiknun á losun og formlegt mat á áætluðum árangri loftslagsaðgerða og hvaða upplýsingar nýtt orkuskiptalíkan Orkustofnunar getur gefið, umfram það sem fyrri eldsneytisspá bauð upp á. Jón Ásgeir Haukdal kynnti orkuskiptalíkanið nánar fyrir ráðinu. Helsta breytingin frá fyrri eldsneytisspá er sú að þetta líkan byggir á samþættum upplýsingum (raforku- og eldsneytispár) og er bæði gagnvirkt, sjónrænt og hraðvirkt. Það getur þannig sagt til um hvaða áhrif mismunandi hraði innleiðingar á tækni sem og vissar hegðunarbreytingar hefur á orkuþörf og áætlaðan samdrátt í losun. Því hægt er að draga fram sviðmyndir sem byggja á mismunandi forsendum og skoða vænt áhrif hverrar og einnar þeirrar.
Önnur mál og næsti fundur
Engin önnur mál lágu fyrir. Næsti fundur er áætlaður þann 24. febrúar næstkomandi.