24. febrúar 2021
Mætt: Halldór Þorgeirsson, Brynhildur Davíðsdóttir, Ragnhildur Freysteinsdóttir, Auður Alfa Ólafsdóttir, Sigurður Loftur Thorlacius, Hildur Hauksdóttir, Hrönn Hrafnsdóttir, Jóhanna Harpa Árnadóttir, Árni Finnsson, Sveinn Margeirsson, Unnsteinn Snorri Snorrason, Guðmundur Þorbjörnsson, Sævar Helgi Bragason og varafulltrúarnir Hlynur Óskarsson og Helga Ögmundsdóttir, bæði f.h. háskólasamfélagsins.
Gestur ráðsins: Hafdís Hanna Ægisdóttir frá stofnun Sæmundar fróða (liður 3).
Fundurinn var haldinn í Skuggasundi 3 kl. 13-15. Guðný Káradóttir verkefnisstjóri skráði fundargerð.
Fundargerð síðasta fundar
Fundargerð síðasta fundar var samþykkt.
Ábyrg kolefnisjöfnun
Fyrir fundinum lá samantekt sem lýsir samstarfi Loftslagsráðs og Staðlaráðs varðandi vinnustofu um ábyrga kolefnisjöfnun. Tilgangurinn er að stuðla að sammæli um aðferðir við mælingar og útgáfu kolefniseininga, miðlæga skráningu á útgáfu þeirra og sammæli um ábyrgar yfirlýsingar um kolefnisjöfnun á samkeppnismarkaði. Vinnustofan skiptist niður á þrjá daga, alla dagana kl. 9-12, 25. febrúar, 4. mars og 18. mars. Á fyrsta fundi er stöðugreining og væntingar þátttakenda ræddar. Á öðrum fundi er umræða um áskoranir og þarfir og á þriðja fundi eru niðurstöður dregnar saman, sammælis leitað og tekin ákvörðun um framhaldið.
Umræður að lokinni kynningu. Ábending kom fram um að sjónarmið neytenda verði höfð að leiðarljósi í þessari vinnu.
Kortlagning á vísindaráðgjöf
Gestur ráðsins undir þessum dagskrárlið var Hafdís Hanna Ægisdóttir frá Stofnun Sæmundar fróða við Háskóla Íslands. Fyrir fundinum lá samantekt sem lýsir kortlagningu á vísindaráðgjöf í loftslagsmálum á Íslandi. Markmið úttektarinnar er að gefa yfirsýn og leggja grunn að umræðu um þverfræðilega og öfluga vísindaráðgjöf um loftslagsmál á Íslandi sem skili auknum gæðum í stefnumörkun og ákvarðanatöku. Markmið úttektarinnar er að gefa yfirsýn og leggja grunn að umræðu um þverfræðilega og öfluga vísindaráðgjöf um loftslagsmál á Íslandi sem skili auknum gæðum í stefnumörkun og ákvarðanatöku.
Hafdís Hanna sagði nánar frá fyrirhugaðri úttekt og tók þátt í umræðum og svaraði spurningum ráðsmeðlima. Áætlað er að ráðið fjalli um úttektina síðar í vor, en vinnunni við þessa úttekt sem Stofnun Sæmundar fróða framkvæmir í nánu samstarfi við Loftslagsráð á að ljúka í júní.
Landsframlag Íslands (NDC)
Fyrir fundinum lá samantekt stjórnvalda sem lýsir landsframlagi Íslands til markmiðs Parísarsamningsins sem skilað hefur verið inn til skrifstofu samningsins. Einnig frumvarp til laga um breytingu á lögum um loftslagsmál nr. 70/2012 þar sem lagt er til að markmiðið um kolefnishlutleysi 2040 verði lögfest og skilgreint.
Rætt hvort framsetning landsframlagsins kalli á viðbrögð Loftslagsráðs. Fram komu hugmyndir sem verða útfærðar nánar og ræddar á næsta fundi.
Samtal og sókn
Farið var yfir framgang undirbúnings tveggja viðburða sem haldnir verða undir merkjum Samtals og sóknar í loftslagsmálum. Annars vegar um ferðaþjónustu sem haldinn verður 13. apríl og hins vegar um sjávarútveg í byrjun júní. Undirhópar hafa verið myndaðir með fulltrúum í ráðinu sem vinna með verkefnisstjóra að undirbúningi.
Fyrir fundinum lá uppfærð samantekt frá skrifstofu ráðsins um sjávarútveg sem ætlað er að varpa ljósi á aðgerðir sem eru í gangi og fyrirliggjandi upplýsingar sem til eru um losun gróðurhúsalofttegunda í sjávarútvegi. Til viðbótar verður verkfræðistofan Efla fengin til að taka saman ítarlegri upplýsingar sem nýtast í samtalinu um tækifæri til að minnka kolefnisspor greinarinnar.
Önnur mál
Aðgerðaáætlun orkustefnu hefur verið gefin út af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Var hún meðal fundarganga þessa fundar. Hún byggir á orkustefnu sem ráðherra ferðamála, iðnaðar- og nýsköpunar hefur lagt fram á Alþingi. Rætt um viðbrögð og mögulegt rýni Loftslagsráðs. Ákveðið að ráðið muni tjá sig um áætlunina og verður rætt um hvaða leið verður farin í þeim efnum á næsta fundi.
Sigurður Loftur sagði frá „Upplýsingafundi almannavarna um loftslagsbreytingar“ sem haldinn var 19. febrúar undir merkjum Loftslagsverkfalls með þátttöku þriggja fulltrúa í Loftslagsráði.
Hrönn Hrafnsdóttir sagði frá því að ný aðgerðaáætlun Reykjavíkurborgar í loftslagsmálum yrði lögð fram á næsta fundi borgarstjórnar.
Halldór Þorgeirsson greindi frá að óskað hafi verið þátttöku hans í pallborði á atburði á vegum E3G hugveitunnar um tillögu Evrópuþingsins um stofnun Loftslagsráðs Evrópu.