Fundargerð 23. fundar Loftslagsráðs

29. apríl og 6. maí 2020

Fundurinn var haldinn í fjarfundabúnaði í ljósi Covid-19  

Mætt: Halldór Þorgeirsson, Brynhildur Davíðsdóttir, Hrönn Hrafnsdóttir, Ragnhildur Freysteinsdóttir, Ragnar Frank Kristjánsson, Maríanna Traustadóttir, Guðfinna Th. Aðalgeirsdóttir, Gunnar Dofri Ólafsson, Sigurður Thorlacius, Árni Finnsson, Steingrímur Jónsson, Hildur Hauksdóttir, Sigurður Eyþórsson og Sævar Helgi Bragason. Guðný Káradóttir, nýráðinn verkefnastjóri Loftslagsráðs sat fundinn. 

Anna Sigurveig Ragnarsdóttir ritaði fundargerð. 

Fundargerð seinasta fundar

Fundargerð seinasta fundar var samþykkt.

Starfsmannamál

Tilkynnt var að ráðningu í starf verkefnastjóra Loftslagsráðs er lokið og mun Guðný Káradóttir koma til starfa þann 4. maí í fullt starf.  Anna Sigurveig, sem gegnt hefur starfinu frá desember 2018 mun snúa sér að fullu starfi sem starfsmaður sérfræðings í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.  Var Guðný boðin velkomin til starfa og Önnu Sigurveigu þakkað fyrir vel unnin störf.

Stjórnsýsla loftslagsmála

  • Steingrímur Sigurgeirsson og Arnar Pálsson kynntu stöðuna á úttekt um stjórnsýslu loftslagsmála sem Capacent vinnur fyrir ráðið. Leitast er við að svara spurningunni, er Ísland í stakk búið til að takast á við verkefnið?
  • Loftslagsráð ákvað á seinasta árið að leita til Capacent eftir samstarfi til að vinna ítarlega  úttekt á stjórnsýslu loftslagsmála. Á þeim grunni yrði lagt mat á hvernig opinberum aðilum hefur tekist að sinna lögbundnum og ólögbundnum skyldum sínum og hvernig mætti auka þá getu. 
  • Vinna við verkefnið hófst í desember og stendur enn. Felur í sér að núverandi staða er kortlögð m.a. með samtölum við  á þriðja tug einstaklinga sem koma að verkefninu úr ólíkum áttum. 
  • Í verkefninu hefur umgjörð landa í kring um okkur verið skoðuð með það að markmiði að átta sig á því hvaða leiðir eru stjórnvöldum færar til að halda utan um þennan mikilvæga málaflokk.

Fékk ráðið ítarlega kynningu á stöðu verkefnisins en ákveðið var að aukafundur um málið yrði haldinn að viku liðinni, miðvikudaginn 6. maí þar sem fulltrúum verður gefinn verður kostur á að koma ábendingum á framfæri og ákveðin verða næstu skref. 

Samþykkt á áliti Loftslagsráðs á aðgerðaáætlun í loftslagsmálum

Lokadrög að áliti Loftslagsráðs um aðgerðaáætlun í loftslagsmálum voru send á fulltrúa fyrir fundinn. 

Tveir fulltrúar óskuðu á fundinum eftir breytingu á orðalagi tveggja málsgreina í drögunum. Ákveðið var að þær ábendingar myndu teknar til greina. Formaður mun ganga frá álitinu og senda niðurstöðuna til Umhverfis- og auðlindaráðuneytis.

Fleira var ekki rætt og fundi slitið 

Aukafundur

Í lok fundarins 29. apríl var boðað var til framhaldsfundar 6.maí kl. 15-16. Hann var haldinn með fjarfundabúnaði. 

Mætt: Halldór Þorgeirsson, Brynhildur Davíðsdóttir, Árni Finnsson, Guðfinna Th. Aðalgeirsdóttir, Gunnar Dofri Ólafsson, Hildur Hauksdóttir, Hrönn Hrafnsdóttir, Jóhanna Harpa Árnadóttir, Maríanna Traustadóttir, Ragnhildur Freysteinsdóttir, Sigurður Eyþórsson, Sigurður Loftur Thorlacius, Sævar Helgi Bragason, Steingrímur Jónsson og Ragnar Frank Kristjánsson. Steingrímur Sigurgeirsson og Arnór Pálsson frá Capacent voru gestir fundarins. Guðný Káradóttir og Anna Sigurveig Ragnarsdóttir sátu einnig fundinn. 

Viðfangsefni fundarins var að fá viðbrögð og ábendingar frá fulltrúum í ráðinu við innihaldi skýrslunnar frá Capacent sem fyrir liggur í drögum og kynnt var á fundinum 29. apríl.  

Allir fundarmenn lýstu ánægju með vinnuna og komu flestir með umsögn eða ábendingu. Samhljómur var meðal fundarmanna um að skýrslan verði gerð opinber í einni mynd eða annarri. Einnig verður tekið við skriflegum ábendingum ef einhverjar eru.   

Fleira ekki rætt og fundi slitið.