Í minnisblaði sem Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra kynnti á dögunum fyrir ríkisstjórninni kemur fram að hann hyggst þróa og efla Loftslagsráð svo það geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu til jafns við sambærileg ráð nágrannaríkja okkar. Loftslagsráð, sem er sjálfstætt starfandi ráð hefur það meginhlutverk að veita stjórnvöldum aðhald og ráðgjöf um stefnumarkandi ákvarðanir og markmið Íslands sem tengjast loftslagsmálum. Loftslagsráð var sett formlega á fót í kjölfar breytinga á lögum um loftslagsmál árið 2019. Fulltrúar í ráðinu voru skipaðir í byrjun september árið 2019 og luku því fjögurra ára skipunartíma sínum í byrjun september sl.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að hlutverk Loftslagsráðs skuli tekið til endurskoðunar, með aukinni áherslu á ráðgefandi hlutverk og vísindastarf, auk aðhalds- og eftirlitshlutverks gagnvart stjórnvöldum. Til undirbúnings á endurskoðun hlutverk ráðsins fékk umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið dr. Ómar H. Krismundsson stjórnmálafræðing til að vinna skýrslu um starfsemi Loftslagsráðs frá stofnun þess. Í skýrslunni eru einnig settar fram ábendingar um vænlegar leiðir til frekari ávinnings af starfi ráðsins, svo sem að ráðið verði til framtíðar skipað sérfræðingum með sérþekkingu á þeim mörgu sviðum sem loftslagsvandinn snýr að.
Þessar vikurnar undirbýr umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, í samstarfi við formann Loftslagsráðs, meðal annars eftirfarandi verkefni tengd eflingu ráðsins:
- Málþing um reynsluna af starfi ráðsins í núverandi mynd og tengdum þáttum í loftslagslögum.
- Frumvarp til laga um breytingar á lögum um loftslagsmál á komandi vorþingi.
- Drög að hæfnisviðmiðum vegna vals og tilnefninga á meðlimum í Loftslagsráð.
- Lengd og eðli skipunartíma svo ráðið sé alltaf starfhæft og í fullri faglegri virkni.
- Tryggja stjórnsýslulega stöðu Loftslagsráðs samkvæmt lögum um loftslagsmál.
- Efla starfsemi skrifstofu Loftslagsráðs.
Ráðherra hefur skipað Halldór Þorgeirsson formann Loftslagsráðs og Brynhildi Davíðsdóttur sem varaformann ráðsins og munu þau vinna að undirbúningi starfs ráðsins á komandi starfsári þar til nýtt Loftslagsráð hefur verið hefur verið fullskipað, eigi síðan en 1. desember nk. Ofangreind samantekt byggir á frétt urn um sama mál frá 27. september 2023.