Umfjöllunarefni
Forsætisráðuneytið hefur sett fram drög að Atvinnustefnu Íslands, vaxtarplan til ársins 2035. Loftslagsráð hefur lagt áherslu á mikilvægi þróunar lágkolefnahagkerfis Íslands og fagnar því að atvinnustefna í þeim anda sé lögð fram. Loftslagsráð vill þó leggja áherslu á eftirfarandi atriði:
Leiðarljós og forsendur þurfa að styðja við markmið um aukna velsæld og sjálfbærni
- Forsendur atvinnustefnunnar eru að aukinn hagvöxtur, framleiðni vinnuafls og útflutningur séu skilyrði til aukinnar velsældar á Íslandi. Hagvöxtur getur verið leið að aukinni velsæld, en aukinn hagvöxtur virðist markmið í sjálfu sér, án skýrrar röksemdarfærslu um hvernig hann skilar sér í bættri velsæld. Er það áhyggjuefni, enda þýðist sú áhersla yfir í hefðbundna hagvaxtartengda mælikvarða. Í því samhengi þarf að hafa í huga að áhersla á aukinn hagvöxt eða aukna framleiðni vinnuafls er ekki fullnægjandi til þess að auka velsæld, samfélagslegt virði eða tryggja nettó þjóðarábata (e: net national benefits) af stefnunni.
- Í þróuðu samfélagi sem reiðir sig á sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda og heilnæmt umhverfi, getur hagvöxtur, án raunverulegrar áherslu á velsæld svo sem með því að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif, virkað sem vanstilltur áttaviti fyrir þróun atvinnulífs og samfélaga almennt.
- Sjálfbær þróun er mikilvægt leiðarljós samfélagsþróunar á heimsvísu. Ísland, líkt og aðrar þjóðir hefur einsett sér að uppfylla Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Það er áhyggjuefni að sjálfbær þróun sé ekki eitt leiðarljósa atvinnustefnunnar.
- Í framtíðarsýn stefnunnar segir: “Verðmætasköpun er knúin af fjölbreyttum útflutningi sem byggir á nýsköpun og sjálfbærri nýtingu auðlinda”. Það er áhyggjuefni að hvergi í öðrum hlutum stefnunnar er áhersla lögð á “sjálfbæra nýtingu auðlinda”. Sjálfbærni í nýtingu auðlinda næst ekki af sjálfu sér, heldur þarf markvist að vinna gegn ofnýtingu þeirra. Einnig er áhyggjuefni að ekki er lögð áhersla á að tryggja að nýting auðlinda skerði ekki sjálfbæra þróun samfélaga svo sem með neikvæðum áhrifum á umhverfið, aðra atvinnustarfsemi eða jöfnuð.
Mörkun þarf að ná yfir heildarlosun GHL, horfa kerfisbundið á hagkerfið í heild m.t.t. orkuskipta og taka til greina umhverfisáhrif.
- Mikilvægt er að þróun atvinnulífsins leiði til samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda (GHL) og eða aukinnar bindingar í heild. Aðeins með slíkri áherslu er raunverulega unnið að þróun lágkolefnahagkerfis.
- Það er jákvætt að sjá í stefnunni áherslu á samdrátt gróðurhúsalofttegunda og bindingu bæði hvað varðar nýjar atvinnugreinar og þær sem fyrir eru svo sem ferðaþjónustu og stóriðju. Mikilvægt er að atvinnustefnan þrýsti á samdrátt í losun frá hefðbundnum atvinnugreinum. Það er einnig jákvætt að sjá áherslu á þróun iðngarða þar sem samlegðaráhrif mismunandi atvinnugreina til verðmætasköpunar og samdráttar í losun geta verið umtalsverð. Æskilegt væri að sjá enn frekari áherslu á innleiðingu hringrásarhagkerfis.
- Í inngangi stefnunnar er lögð áhersla á að auka þurfi aðgengi að hagkvæmri endurnýjanlegri orku til að styðja við orkuskipti og hagvöxt. Orkuskipti eru lykilaðgerð í þróun lágkolefnahagkerfis framtíðarinnar. Það er áhyggjuefni að í stefnunni er hvorki lögð áhersla á aðgengi að endurnýjanlegri og hagkvæmri orku til orkuskipta né fjárfestingu í orkuskiptunum sjálfum.
- Auk áhrifa á loftslag hefur þróun atvinnulífs önnur umhverfisáhrif, meðal annars á landnotkun og víðerni, úrgang og mengun, líffræðilega fjölbreytni og notkun vatns. Það er áhyggjuefni að stefnan horfir ekki til annarra umhverfisáhrifa. Til að stuðla að aukinni velsæld til framtíðar þarf einnig að taka tillit til þessara áhrifa við mótun og innleiðingu atvinnustefnu.
Lægri kolefniskræfni þarf að leiða til samdráttar í heildarlosun GHL
- Þróun atvinnulífs í átt til lágkolefnahagkerfis þarf að byggja á alþjóðlega viðurkenndum mælikvörðum sem gefa vísbendingar um bein og óbein loftslagsáhrif mismunandi atvinnugreina. Mælikvarðarnir sem lagðir eru til grundvallar þurfa að byggja á vísindalegum grunni, vera sértækir en þó heildstæðir, og byggja á viðurkenndum, áreiðanlegum og samanburðarhæfum gögnum.
- Þegar metin er kolefniskræfni (e: carbon intensity) atvinnugreina er annars vegar verið að meta áhrif atvinnugreina á losun, föngun og förgun eða hagnýtingu fangaðra gróðurhúsalofttegunda (GHL) og hins vegar framleiðslu eða framleiðsluvirði greinarinnar.
- Áhrif á losun, föngun, förgun eða hagnýtingu fangaðra GHL leiða til breytinga í styrkleika GHL í lofthjúpnum og því er mikilvægt að mæling á kolefniskræfni taki til allra þessa þátta.
- Mikil þróun hefur átt sér stað í aðferðafræði í mati á kolefniskræfni vara og þjónustu. Nauðsynlegt er að viðurkenndar aðferðir séu nýttar í mati á kolefniskræfni, að mat sé lagt á alla virðiskeðjuna og að matið taki til loftslagsáhrifa lífsferils vöru og þjónustu frá vöggu til grafar.
- Lægri kolefniskræfni leiðir ekki endilega til samdráttar í heildarlosun GHL. Forsenda raunverulegrar þróunar lágkolefnahagkerfis er að heildarlosun GHL dragist saman. Það er áhyggjuefni að við mótun atvinnustefnu virðist aðallega horft til lægri kolefniskræfni án samsvarandi áherslu á samdrátt í heildarlosun GHL. Hvort tveggja þarf að koma til.
Niðurlag
- Atvinnustefna Íslands er sett fram til 10 ára. Hafa ber í huga að áhrifa hennar mun gæta til langrar framtíðar, langt umfram líftíma stefnunnar. Vanda þarf til verka.
- Forsendur, mörkun og val á mælikvörðum skipta sköpum fyrir árangur atvinnustefnunnar til að þróa lágkolefnahagkerfi sem stuðlar á sama tíma að velsæld og sjálfbærri þróun.
- Einsleitar forsendur stefnunnar, mörkun og val á mælikvörðum sem byggja á þröngu sjónarhorni en hvorki kerfishugsun né heildarmynd geta leitt okkur af leið og þar með komið í veg fyrir að markmið stefnunnar náist.

