Álit Loftslagsráðs á atvinnustefnu forsætisráðuneytisins
23. janúar, 2026

Loftslagsráð samþykkti á fundi sínum 22. janúar álit um drög forsætisráðuneytisins um atvinnustefnu, vaxtarplan til ársins 2035.

Loftslagsráð hefur lagt áherslu á mikilvægi þróunar lágkolefnahagkerfis Íslands og fagnar því að atvinnustefna í þeim anda sé lögð fram. Ráðið telur þó mikilvægt að styrkja ákveðna þætti svo stefnan styðji raunverulega við aukna velsæld, sjálfbærni og samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda.

Leggur Loftslagsráð áherslu á eftirfarandi:

Leiðarljós og forsendur þurfa að styðja við markmiðu um aukna velsæld og sjálfbærni. Forsendur atvinnustefnunnar eru að aukinn hagvöxtur, framleiðni vinnuafls og útflutningur séu skilyrði til aukinnar velsældar á Íslandi. Hagvöxtur virðist markmið í sjálfu sér, án skýrrar röksemdarfærslu um hvernig hann skilar sér í bættri velsæld.

Í þróuðu samfélagi sem reiðir sig á sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda og heilnæmt umhverfi, getur hagvöxtur, án raunverulegrar áherslu á velsæld svo sem með því að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif, virkað sem vanstilltur áttaviti fyrir þróun atvinnulífs og samfélaga almennt.

Mörkun stefnunnar þarf að ná yfir heildarlosun gróðurhúsalofttegunda og taka mið af umhverfisáhrifum í heild. Ráðið telur lykilatriði að þróun atvinnulífs leiði til samdráttar í heildarlosun og/eða aukinnar bindingar. Þá telur ráðið áhyggjuefni að ekki sé fjallað nægilega um önnur umhverfisáhrif, svo sem landnotkun, úrgang, mengun, líffræðilega fjölbreytni og vatnsnotkun.

Lægri kolefniskræfni dugar ekki ein og sér — heildarlosun þarf að dragast saman. Ráðið leggur áherslu á að mælikvarðar um kolefniskræfni byggi á viðurkenndum og vísindalegum aðferðum, taki til beinna og óbeinna loftslagsáhrifa og nái yfir alla virðiskeðjuna og lífsferil (frá vöggu til grafar).

Atvinnustefnan er sett fram til 10 ára, en ráðið bendir á að áhrif hennar geti orðið langvinn. Því þarf að vanda til verka. Forsendur, mörkun og val mælikvarða eru því úrslitaatriði, of þröng nálgun án heildarsýnar og kerfishugsunar getur dregið úr árangri og villt af leið.

Hér má lesa álitið í heild sinni.