Efni frá málfundi um loftslagsvænar framfarir
16. nóvember, 2020

Loftslagsráð og sendiráð Bretlands á Íslandi héldu málfund um loftslagsmál þriðjudaginn 10. nóvember sl. Tilgangur fundarins var að hvetja til samstöðu og ábyrgðar stjórnmálamanna, atvinnulífs, sveitarfélaga, félagasamtaka og annarra í viðbrögðum við loftslagsvá og kynna undirbúning næstu loftslagsráðstefnu SÞ (COP26). Bretland heldur loftslagsráðstefnuna í Glasgow 1.-12. nóvember 2021 í samstarfi við Ítalíu og Sameinuðu þjóðirnar, en henni var frestað um ár út af COVID-19.  Þar koma ríki heims saman til að efla samtakamátt og metnað í loftslagsmálum. 

Árið 2020 markar þáttaskil þar sem aðildarríki Parísarsamningsins eiga að uppfæra framlög sín til markmiðs samningsins fyrir lok ársins og standa skil á langtímastefnumótun sinni um kolefnishlutleysi.  Þjóðir heims eru hvattar til að auka metnað og sókn í loftslagmálum og er unnið af krafti í aðdraganda ráðstefnunnar að því að skapa aukinn slagkraft og markvisst samstarf um sameiginleg markmið. Þetta var meðal þess sem rætt var og kynnt á fundinum. 

Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs

Halldór Þorgeirsson formaður Loftslagsráðs hélt opnunarávarp. Hann sagði miklar væntingar til loftslagsráðstefnunnar í Glasgow og forystuhlutverks Breta í samstarfi við Ítali. Væntingarnar væru ólíkar því sem var í París 2015; nú er ákall um aðgerðir og sterka samstöðu í baráttunni við loftslagsvána. Halldór sagði einnig stuttlega frá starfi og hlutverki Loftslagsráðs og hvernig ráðið hefur lagt sitt af mörkum í að skapa virka umræðu og stuðla að markvissum aðgerðum í loftslagsmálum.

Myndband sem kynnir hlutverk og starf Loftslagsráðs.

Michael Nevin, sendiherra Bretlands á Íslandi

Michael Nevin, sendiherra Bretlands á Íslandi ávarpaði fundinn. Hann lagði út frá brýnum viðfangsefnum sem loftslagsváin færir okkur, bráðnun jökla og hlýnun sjávar sem hefur áhrif á fiskistofna. Hann fjallaði um græna endurreisn og taldi COVID-19 vera hvata til að hraða aðgerðum í loftslagsmálum. Hann kom inn á hlutverk sendiráðsins í Reykjavík og samstarf Bretlands og Íslands í loftslagsmálum; báðar þjóðirnar eru sterkar í nýsköpun. 

Nick Bridge, sérstakur fulltrúi breska utanríkisráðherrans í loftslagsmálum

Nick Bridge, sérstakur fulltrúi breska utanríkisráðherrans í loftslagsmálum kynnti forystuhlutverk Breta við undirbúning COP26. Vísindin og rannsóknir sýna að bregðast þarf hratt við og byggja upp fleiri störf í grænu hagkerfi. Hann sagði stöðuna gagnvart Parísarsamningnum og ráðstefnunni ólíka nú frá því sem var í París 2015. Græn uppbygging og aðgerðir í kjölfar COVID-19 skipta miklu máli, bæði m.t.t. efnahags, umhverfis og samfélags. Hann nefndi Kína, Japan og Kóreu sem dæmi um þjóðir sem nýlega hafa tilkynnt markmið um kolefnishlutleysi og brýnt að aðrar þjóðir sýni metnað og móti sér stefnu í þeim efnum sem fyrst. Hann taldi ábyrgð Breta vera mikla þegar kemur að því að halda COP26 og lýsti sýn og væntingum Breta um hverju skuli náð fram með ráðstefnunni í Glasgow á næsta ári. 

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis – og auðlindaráðherra

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra sagði í erindi sínu að Ísland væri að undirbúa hert markmið innan ramma Parísarsamningsins. Hann sagði að í aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum sé gert ráð fyrir meiri samdrætti í losun og að áætlunin sé góður grunnur til að byggja á. Mótvægisaðgerðum stjórnvalda gegn COVID-19 sé ætlað að styðja við græna og loftslagsvæna endurreisn. 

Samtal um metnað, ábyrgð og samstöðu

Fundinum lauk með samtali Nick Bridge, ráðherra, Brynhildar Davíðsdóttir, sem er varaformaður Loftslagsráðs og Rebeccu Heaton sem situr í breska loftslagsráðinu. Brynja Þorgeirsdóttir stýrði samtalinu.