Fundargerð 88. fundar Loftslagsráðs

4. nóvember 2025


Fulltrúar sem sátu fundinn: Halldór Þorgeirsson, Brynhildur Davíðsdóttir, , Bjarni Diðrik Sigurðsson, Bjarni Már Magnússon, Halldór Björnsson, Helga Jóhanna Bjarnadóttir, Ingibjörg Svala Jónsdóttir, Stefán Þór Eysteinsson og Þorgerður María Þorbjarnardóttir.

Fundurinn var haldinn á Veðurstofu Íslands, Bústaðarvegi 7, 105 Reykjavík, fundarherbergi Öskjuhlíð.

Anna Sigurveig Ragnarsdóttir, framkvæmdastjóri skráði fundargerð.

Fundargerð seinasta fundar

Fundargerð 87. fundar sem haldinn var 23. október var samþykkt án athugasemda.

Aðlögun – forgangsaðgerðir- kynning frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti

Gestir undir þessum dagskrárlið voru Björn Helgi Barkarson, skrifstofustjóri, Magnús Örn Agnesar Sigurðsson teymisstjóri og Elín Björk Jónasdóttir sérfræðingur, á skrifstofu loftslags og náttúru hjá Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti.

Ráðuneytið kynnti nýlega til samráðs drög að aðgerðum í aðlögunaráætlun Íslands vegna loftslagsbreytinga. Áætlunin mun samanstanda af samþykktu safni aðlögunaraðgerða fyrir tímabilið 2026-2030. Frestur til athugasemda í samráðsgátt stóð til 30. september og hefur umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti ásamt verkefnastjórn um loftslagsaðgerðir tekið tillit til umsagna og lagt drög að forgangslista.

Fulltrúar umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins kynntu aðgerðir og skipulag vinnunnar en óskað hefur verið eftir áliti ráðsins á áætluninni og forgangsröðun fyrstu aðgerða. Verður aðlögunaráætlun og viðbrögð ráðsins þeirri vinnu því til frekari umfjöllunar á næsta fundi.

Landsframlag Íslands til Loftslagssamningsins

Ráðherra kynnti nýlega landsframlag Íslands til ársins 2035 og var það til umræðu á 87.  fundi ráðsins 23. október. Á þeim fundi voru lögð fram drög að áliti og í framhaldinu  ákveðið að vinna úr athugasemdum fulltrúa.

Fyrir fundinum lágu því ný drög að áliti sem tekin voru til umræðu og samþykkt af fundarmönnum, með breytingum sem samþykktar voru á fundinum.

Mótun atvinnustefnu

Á fundinum var rætt um möguleg viðbrögð Loftslagsráðs við  mótun atvinnustefnu Íslands, sem samkvæmt upplýsingum frá forsætisráðuneyti lýsir því hvernig stjórnvöld vinna með atvinnulífinu að aukinni verðmætasköpun í jafnvægi við samfélag, umhverfi og innviði.

Ráðið fékk kynningu og átti samtal um áherslur atvinnustefnunnar og tengingu hennar við markmið í loftslagsmálum á 86. fundi sínum 2. október. Kom þar fram mikill vilji til samstarfs og á fundi ráðsins 23. október var ákveðið að vinna stutt minnisblað til forsætisráðuneytis þar sem farið er fyrir helstu áhersluatriði ráðsins í samhengi atvinnustefnunnar.

Drög að minnisblaði voru gerð aðgengileg fyrir fundinn og samþykkt á fundinum án efnislegra athugasemda.

Önnur mál

Annað var ekki til umræðu.