Loftslagsmarkmið einstakra ríkja
21. nóvember, 2025

Aðildaríkjaþing loftslagssamning Sameinuðu þjóðanna, COP30 stendur nú yfir í Belem í Brasilíu. Í ár var ekki beðið eftir stórum ákvörðunum þingsins en í aðdraganda þess var boltinn hins vegar hjá aðildaríkjum sem áttu að uppfæra markmið sín í loftslagsmálum, svokölluð landsframlög. Einungis 64 ríki, þar á meðal Ísland skiluðu sínum uppfærðu markmiðum í tæka tíð fyrir samantektir samningsins um stöðuna í loftslagsmálum.  

Á seinustu dögum hafa þó ófá ríki bæst í hópinn og nýjasta landsframlagið, framlag Mexíkó var kynnt í byrjun vikunnar. Það eru því samtals 115 ríki sem hafa nú skilað nýju markmiði. Þetta gerir erfiðara fyrir að átta sig á hvaða áhrif aðgerðir ríkjanna geta haft á það markmið samningsins að halda hlýnun innan við 1,5 gráður frá iðnbyltingu. En í samantektarskýrslu á landsframlögum, sem gefin var út af skrifstofu samningsins má greina mikilvægar framfarir í þeim 64 framlögum sem var þó skilað inn í tæka tíð.

Ef draga á saman samantektina, má segja að hún leiði í ljós að þótt landsframlögin séu færri, þá eru þau almennt betri að gæðum. Áætlanir eru almennt betur útfærðar og heildstæðari, og ná til fleiri sviða samfélagsins. Í auknum mæli eru loftslagsmarkmiðin nú samhæfð við markmið um aukinn hagvöxt, fleiri störf, betri lýðheilsu, lægra vöruverð og aukið orkuöryggi. Á móti kemur að landsframlögin þurfa almennt að vera metnaðarfyllri þegar kemur að meginmarkmiði þeirra, sem er að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Þótt áætlanirnar miði allar að kolefnishlutleysi um miðja öld, þá er ljóst að verulegur árangur í þá átt þarf að skila sér hraðar.

Heilt yfir má lesa úr landsframlögunum að losun þessara sextíuogfjögurra þjóða muni ná hámarki fyrir 2030, en uppúr 2035 muni draga hratt úr losun. Hin uppfærðu landsframlög gera nú ráð fyrir um 6% minni losun fyrir 2030, samanlagt, miðað við fyrri landsframlög.  Horfur hafa því batnað, hvað varðar þessi ríki, þótt mun meira þurfi til. 

Það vekur athygli skýrsluhöfunda að landsframlögin tæpa nú á fleiri þáttum loftslagsmála en áður. Ríkari áhersla en áður er lögð á jákvæð efnahagsleg áhrif loftslagsaðgerða. Samantektin sýnir að í 70% af framlögðum loftslagsmarkmiðum er lögð áhersla á það að markmiðunum skuli náð með réttlæti og jöfnuð að leiðarljósi, þannig að þau auki ekki á fátækt eða jaðarsetningu minnihlutahópa.

Í samræmi við þessa auknu áherslu á réttlát umskipti leggja nú fleiri þjóðir einnig áherslu á kynjajafnrétti í sínum áætlanagerðum, en 89% af landsframlögunum fjalla um jafnrétti kynjanna á einhvern hátt og í 80% þeirra er lýst yfir að tekið verði tillit til kynjajafnréttis í loftslagsaðgerðum. Þá hefur að sama skapi aukist að tekið sé tillit til hagsmuna frumbyggjasamfélaga, og einnig hefur færst verulega í vöxt að þjóðir fjalla sérstaklega um stöðu barna og ungmenna.

Aðrar breiðar línur eru greinanlegar í framlögunum. Það er eftirtektarvert að stór hluti landsframlaganna felur nú einnig í sér áætlanir um aðlögun að loftslagsbreytingum. Þar leggja þjóðir áherslu á að tryggja fæðuöryggi, aðgengi að vatni, heilsuvernd, verndun vistkerfa, almannavarnir og fleira. Alls innihalda 73% landsframlaganna einhverjar slíkar áherslur, sem er aukning frá því sem áður var.

Það er einnig breytingin, að nær allar þjóðir viðurkenna mikilvægi skóglendis og má einnig greina aukinn þunga í aðgerðum sem varða hafið. Um 40% aukning hefur orðið á því að þjóðirnar minnist á hafið í sínum aðgerðaráætlunum, sem endurspeglar vaxandi áhyggjur af bæði súrnun sjávar og hlýnun þess.

Á meðal annarra áhersluatriða sem vaxið hefur fiskur um hrygg, er aukin áhersla á milliríkjasamstarf, græna fjármögnun, nýsköpun og tækni, eflingu stofnanaumhverfis og umbætur í réttarkerfinu. Allir þessir þættir eru nú taldir mikilvægir í baráttunni við loftslagsbreytingar. Þá má einnig greina aukna þátttöku annarra aðila, utan ríkisvaldsins, í loftslagsáætlunum, eins og fyrirtækja og almannaheilla- og umhverfissamtaka.

Mynd: Rafa Neddermeyer/COP30.