Loftslagsráð á COP30 í Brasilíu
12. nóvember, 2025

COP30, þing aðildarríkja loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna hófst í gær 10. nóvember Hvað er á dagskrá er spurt,  um hvað er verið að semja. Í raun er árið í ár ekki beðið eftir stórum ákvörðunum þingsins. Verkefnin hafa sinn gang – eitt og annað er til útfærslu en stórra tíðinda er ekki að vænta. Það er meira og minna vitað hvernig Parísarsamningurinn á að virka.

Alla jafna er fjallað mikið um hlut stjórnvalda, aðgerðir og innlegg þjóðarleiðtoga – enda skiptir leiðtogahlutverk ríkjanna miklu um viðbrögðin við loftslagsvá. Það verður að segjast að þingið fer ekki af stað í umhverfi sem gefur mikið tilefni til bjartsýni. Leiðtogar helstu ríkja eru margir fjarverandi, aðildaríkin áttu að skila nýjum landsframlögum sem eru eins konar loforð ríkjanna um þeirra framlag til að ná megi markmiðum samningsins um að halda hlýnun innan 1.5 gráðu.

Það gefur ekki tilefni til bjartsýni að framsett framlög eru langt frá því að ná að halda hlýnuninni innan marka.

En það er líka aðra sögu að segja. Dagskrá 50 þúsund þátttakenda hverfist ekki um samninga. Mikill meirihluti þeirra sem sækja þingin eru hingað komin til að hitta aðra, leita lausna og deila þeim, og aðeins í Dubai 2023 voru fleiri skráðir þátttakendur. Áhuginn hefur því ekki minnkað. Brasilía hefur lagt höfuðáherslu á aðgerðir – fremur  en pólitík og að það sé sameiginlegt verkefni okkar allra að halda hlýnun innan umsamdra marka og aðlagast þeim breytingum með réttlát umskipti að leiðarljósi.

Mutirão – eru einkunnarorð ráðstefnunnar í ár. Brasilísk menning erfði hugtakið frá frumbyggjum þessa svæðis. Það vísar til þess þegar samfélag kemur saman til að vinna að sameiginlegu verkefni. Sem er afar viðeigandi. Brasílía hefur jafnframt minnt á að allir skipta máli – þetta er COP fólksins – ekki stórfyrirtækja – ekki stjórnmála.

Staðsetningin setur mark sitt á þingið á margan hátt. Lula forseti Brasilíu sagði borgina ekki tilbúna, og það er á margan hátt rétt. En það er kannski viðeigandi og táknrænt enda stöndum við frammi fyrir verkefni sem við erum ekki tilbúin fyrir. Það er líka holt að vera minntur á víða eru innviðir sem við eigum að venjast ekki til staðar.

Þrátt fyrir að staðan í alþjóðastjórnmálum gæti verið betri, er nauðsynlegt að greina stöðuna eins og hún er. Hvað varðar loftslagsmálin og lausnirnar þá virðast í stuttu máli vera tvær sögur að segja. Annars vegar að við erum ekki að ná markmiðum okkar, við erum að upplifa gríðarlegt bakslag og að mikilvægir aðilar hafa misst áhugann.

Hins vegar að þrátt fyrir þetta bakslag er farin er af stað bylting sem ekki sér fyrir endann á. Eftir því sem tíminn líður hefur sá hluti ráðstefnunnar sem varðar lausnahlutann orðið umfangsmeiri. Við erum að sjá árangur í ákveðnum geirum, fjármögnun til loftslagsaðgerða og lausna hefur stóraukist á undanförnum árum. Þetta gefur tilefni til bjartsýni. Hér eru samankomin þau, sem eru daginn út og daginn inn að vinna að og innleiða lausnir.

Á svona stundum, þar sem samvinnu skortir á sviði loftslagsmála, því aðrir hlutir grípa athygli stjórnmálanna er gott að vita til þess að þrátt fyrir fjarveru sumra virðist kominn meiri kraftur í hina.

Forseti Finnlands – sagði á leiðtogafundi í Belem í lok seinustu viku, það verða ekki hinir svartsýnu sem munu leysa loftslagskrísuna, það geta bara bjartsýna fólkið og realistarnir gert. Aðeins þau sem horfast í augu við veruleikann munu ná að nýta tækifærin.

Framkvæmdastjóri tekur þátt í fyrstu viku þingsins fyrir hönd Loftslagsráðs meðal annars í þeim tilgangi að tengjast öðrum loftslagsráðum um allan heim, deila lausnum, læra af öðrum og styrkja rödd þeirra á alþjóðavettvangi. Fyrst og fremst þeim 25 ráðum, sem staðsett eru um allan heim og sem sitja með okkur í alþjóðasamtökum loftslagráða.