Fundargerð 87. fundar Loftslagsráðs

23. október 2025


Fulltrúar sem sátu fundinn: Halldór Þorgeirsson, Brynhildur Davíðsdóttir, Auður Alfa Ólafsdóttir, Bjarni Diðrik Sigurðsson, Bjarni Már Magnússon, Helga Jóhanna Bjarnadóttir, Helga Ögmundardóttir, Stefán Þór Eysteinsson, Þorgerður María Þorbjarnardóttir.

Fundurinn var haldinn á Veðurstofu Íslands, Bústaðarvegi 7, 105 Reykjavík, fundarherbergi Undirheimar. Anna Sigurveig Ragnarsdóttir, framkvæmdastjóri skráði fundargerð.

Fundargerð seinasta fundar

Fundargerð 86. fundar sem haldinn var 2. október var samþykkt án athugasemda.

Tölur um losun – staðreyndablöð

Vinnuhópur um tölur um losun hefur verið að störfum síðan í vor og lagt drög að staðreyndablöðum um losun gróðurhúsalofttegunda í einstaka geirum. Á starfsdegi ráðsins, 26. september var ákveðið að ljúka við verkefnið fyrir alla geira. Var niðurstaða fundarins að blöðin yrðu stutt, en hnitmiðuð.

Á fundinum var lagt fram eitt staðreyndablað til samþykktar. Var mikil ánægja með þessa niðurstöðu, nálgun, framsetningu og tón. Kaflaskipting í staðreyndablaðinu var talin gagnleg og lýsandi. Ákveðið var að staðreyndablöð fyrir aðra geira verði unnin með sama formi.

Landsframlag Íslands til Loftslagssamningsins

Annað var ekki til umræðu.Ráðherra kynnti nýlega landsframlag Íslands til ársins 2035 í samráðsgátt stjórnvalda.

Rætt var um hugsanleg viðbrögð Loftslagsráðs við landsframlagi Íslands til 2035. Á fundinum voru lögð fram drög að áliti sem ákveðið var að vinna áfram. Unnið verður með þær athugasemdir sem komu fram á fundinum með það að markmiði að samþykkja álit á næsta fundi ráðsins þann 4. nóvember.

Mótun atvinnustefnu

Annað var ekki til umræðu.Ráðherra kynnti nýlega landsframlag Íslands til ársins 2035 í samráðsgátt stjórnvalda.

Á fundinum var rætt um möguleg viðbrögð Loftslagsráðs við  mótun atvinnustefnu Íslands, sem samkvæmt upplýsingum frá forsætisráðuneyti lýsir því hvernig stjórnvöld vinna með atvinnulífinu að aukinni verðmætasköpun í jafnvægi við samfélag, umhverfi og innviði. Ráðið fékk kynningu og átti samtal um áherslur atvinnustefnunnar og tengingu hennar við markmið í loftslagsmálum á 86. fundi sínum 2. október. Kom þar fram mikill vilji til samstarfs við ráðið.

Á fundinum kom fram að mikill áhugi er hjá ráðinu að leggja lóð á vogarskálarnar í þessari vinnu stjórnvalda, sér í lagi hvað varðar forsendur, markmið og mögulega mælikvarða.

Var jafnframt ákveðið, í ljósi hversu hratt til stendur að vinna stefnuna, að vinna stutt minnisblað um þessa þætti sem stefnt er að samþykkja á næsta fundi ráðsins þann 4. nóvember.

Önnur mál

A) Aðlögun – forgangsaðgerðir

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti kynnti nýlega til samráðs drög að aðgerðum í aðlögunaráætlun Íslands vegna loftslagsbreytinga.

Óskað hefur verið eftir áliti Loftslagsráðs á forgangsröðun aðgerða í aðlögunaráætlun Íslands. Munu fulltrúar umhverfis- orku- og loftslagsráðuneytis koma á fund ráðsins 4. nóvember n.k. og kynna ráðinu niðurstöður verkefnastjórnar um forgangsröðun og vinnulag við gerð áætlunarinnar og fyrirkomulag vinnunnar næstu misserin.

B) Undanþága Íslands frá Evrópureglum um losunarheimildir flugrekenda

Nýlegur fréttaflutningur hefur greint frá því að starfshópur stjórnvalda vinni að því að fá framlengingu á undanþágu Íslands frá Evrópureglum um losunarheimildir flugrekenda eftir árið 2026.

Fulltrúar í ráðinu hafa lýst yfir áhyggjum af því að slík framlenging jafngildi niðurgreiðslu á jarðefnaeldsneyti og sendi neikvæð skilaboð til alþjóðasamfélagsins. Rætt var um möguleg viðbrögð ráðsins og ákveðið að byrja á að óska eftir upplýsingum um málið og forsendur undaþágu.

C) Kílómetragjald á ökutæki

Þann 6. október mælti fjármála- og efnahagsráðherra, á Alþingi fyrir frumvarpi til laga um kílómetragjald á ökutæki. Með frumvarpinu er lagt til að greitt verði kílómetragjald í stað olíu- og bensíngjalda. Kílómetragjald var tekið upp fyrir rafmagns-, vetnis- og tengiltvinnbíla árið 2024 og miðar frumvarpið við að það verði tekið upp fyrir öll ökutæki árið 2026.

Ákveðið var að tekið yrði saman hvað ráðið hefur sent frá sér undanfarin misseri vegna kílómetragjalds á ökutæki og sent til efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

D) COP30 í Belem

Framkvæmdastjóri Loftslagsráðs verður á COP30 í Belem fyrstu vikuna. Þar verður tíminn meðal annars nýttur til að funda með fulltrúum annarra loftslagsráða og taka þátt í formlegri dagskrá ICCN.