Fundargerð 77. fundar Loftslagsráðs

13. desember 2024

Fulltrúar sem sátu fundinn: Halldór Þorgeirsson, Brynhildur Davíðsdóttir, Auður Alfa Ólafsdóttir, Bjarni Diðrik Sigurðsson, Bjarni Már Magnússon, Halldór Björnsson, Helga Jóhanna Bjarnadóttir, Helga Ögmundardóttir, Þorgerður María Þorbjarnardóttir.

Fundurinn var haldinn í Veðurstofu Íslands, kl. 10:00-12:00. Anna Sigurveig Ragnarsdóttir, framkvæmdastjóri skráði fundargerð.

Fundargerð seinasta fundar

Fundargerð 76. fundar, sem haldinn var 29. nóvember skoðast samþykkt.

Hagrænir hvatar og gjaldtaka í samhengi loftslagsmarkmiða

Framhald umræðu frá seinasta fundi.

Á fundi Loftslagsráðs þann 29. nóvember var fjallað um stjórnarfrumvarp um kílómetragjald og kolefnisgjald á ökutæki sem sett var fram í samráðsgátt stjórnvalda stuttu áður. Komu fram áhyggjur af því að boðaðar breytingar hefðu ekki verið nægilega vel undirbúnar og myndi það hafa áhrif á framgang orkuskipta í samgöngum. Þetta birtist meðal annars í því að fjölmargar athugasemdir bárust í samráðsgáttina. Boðuðum breytingum á fyrirkomulagi gjaldtöku var síðan frestað. Í nefndaráliti kallaði efnahags- og viðskiptanefnd eftir því að lagabreytingar yrðu undirbyggðar með frekara samráði, greiningu og áhrifamati.

Á fundi Loftslagsráðs 29. nóvember var farið yfir feril fyrirhugaðar lagasetningar um breytingar á gjaldtökukerfi ríkissjóðs vegna ökutækja og eldsneytis og þau gögn sem sett voru fram opinberlega í samráðsgátt.

Ákveðið var að óska eftir frekari upplýsingum frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu um undirliggjandi greiningar og gögn og bárust ráðinu svör við fyrirspurninni þann 11. desember.

Á fundinum var ákveðið að bregðast við þeirri stöðu sem komin er upp.

Samstaða er í ráðinu um að þessi staða kalli á greiningu og vel undirbyggð viðbrögð ráðsins, hugsanlega í samstarfi við aðra aðila. Þessi staða skapar tækifæri fyrir ráðið að fylgja eftir ákalli í álitinu um aðgerðaáætlun í loftslagsmálum að samhæfa þurfi framkvæmd loftslagsstefnu annars vegar og stefnumiða í ríkisfjármálum hins vegar.

Ákveðið var að unnin yrðu drög að áliti skv. fyrirmælum ráðsins og að þau tekin til umræðu á fyrsta fundi ráðsins þann 16. janúar en send ráðinu viku fyrr.

Stefnumótunardagur Loftslagsráðs

Stefnumótunardagur Loftslagsráðs verður haldinn 13. janúar 2025. Farið var yfir skipulagið á fundinum og væntingar ráðsins til dagsins.

Rætt var um fundarsetu varamanna í ráðinu sem atriði til umræðu á stefnumótunardegi, en fulltrúar í ráðinu vísuðu málinu til framkvæmdastjórnar og báðu um að hún tæki afstöðu til þess hvernig haga skuli boðun varamanna á fundi ráðsins.

Önnur mál

Fleira var ekki til umræðu á fundinum.