8. desember 2022
Fulltrúar sem sátu fundinn: Halldór Þorgeirsson, Brynhildur Davíðsdóttir, Ragnhildur Freysteinsdóttir, Hildur Hauksdóttir, Hrönn Hrafnsdóttir, Hjörleifur Einarsson, Guðmundur Þorbjörnsson, Heimir Janusarson varafulltrúi, Árni Finnsson, Tinna Hallgrímsdóttir, Smári Jónas Lúðvíksson, Ingibjörg Svala Jónsdóttir og Aðalheiður Snæbjarnardóttir.
Gestir fundarins voru: undir lið tvö, Guðmundur Steingrímsson og undir lið þrjú, Skúli Skúlason prófessor við Háskólann á Hólum og f.v. rektor háskólans, starfsmaður Náttúruminjasafns Íslands og stjórnarformaður Samráðsvettvangs um líffræðilega fjölbreytni (BIODICE). Verðandi framkvæmdastjóri ráðsins, Þórunn Wolfram Pétursdóttir, sat einnig fundinn og ritaði fundargerð.
Fundurinn var haldinn í húsnæði samtaka atvinnulífsins, Borgartúni 35, kl 14:00-16:00.
Formaður bauð fólk velkomið og þakkaði Hildi Hauksdóttur fulltrúa samtaka atvinnulífsins fyrir að hýsa fundinn.
Fundargerð síðustu funda
Fundargerð 58. fundar var samþykkt.
Stöðumat í kjölfar COP27
Fyrir fundinum lágu lokadrög að stöðumati Loftslagsráðs sem unnið var í ljósi fyrirliggjandi niðurstaðna þingsins. Umræður urðu um lokadrögin og gerðar nokkrar viðbótartillögur að textabreytingum. Stöðumatið var samþykkt með áorðnum breytingum og ákveðið að birta það á heimasíðu Loftslagsráðs á næstu dögum. Formaður mun einnig fylgja því eftir á opinberum vettvangi.
Samspil lífríkis og loftslags
Þessa dagana stendur yfir 15. aðildarríkjaþing Samnings Sþ um líffræðilega fjölbreytni (CBD COP 15) í Montreal og Ísland á þar öfluga sendinefnd. Á þinginu munu ríki heims leitast við að ná samstöðu um hvernig þau hyggjast ná markmiðum samningsins og vinna saman að því risavaxna verkefni að snúa við hraðfara hnignun lífríkja og vistkerfa jarðarinnar. Þessi áskorun og færar leiðir til að takast á við hana eru nátengdar, og í sumum tilfellum þær sömu, og leiðirnar að því að ná valdi á röskun loftslags. Af því tilefni kynnti Skúli Skúlason prófessor fyrir fulltrúum ráðsins hvað hugtakið líffræðileg fjölbreytni stendur fyrir og af hverju það er mikilvægt að vernda og efla líffræðilega fjölbreytni. Rætt var um snertifleti milli þess og loftslagsmálanna og hvernig Loftslagsráð gæti stuðlað að nánari samþættingu viðfangsefnanna í almennri umræðu um mikilvægi þess að horfa til verndar líffræðilegrar fjölbreytni samhliða loftslagsaðgerðum sem til dæmis miða að því að auka kolefnisbindingu í jarðvegi og gróðri. Ákveðið að fara yfir meginniðurstöður CBD COP15 þingsins á næsta fundi ráðsins.
Önnur mál og næstu fundir
Næsti fundur verður 12. janúar 2023.