3. mars 2022
Fulltrúar sem sátu fundinn: Halldór Þorgeirsson, Brynhildur Davíðsdóttir, Ragnhildur Freysteinsdóttir, Hildur Hauksdóttir, Hrönn Hrafnsdóttir, Sigurður Loftur Thorlacius, Brynhildur Pétursdóttir, Guðfinna Th. Aðalgeirsdóttir, Sveinn Margeirsson, Steingrímur Jónsson, Guðmundur Þorbjörnsson og Aðalheiður Snæbjarnardóttir.
Gestir fundarins voru: Anna Hulda Ólafsdóttir, yfirmaður skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar á Veðurstofu Íslands, Hrafnhildur Bragadóttir, lögfræðingur, aðjúnkt við lagadeild HÍ og annar höfunda bókarinnar Loftslagsréttur og Jónas Atli Gunnarsson, hagfræðingur, stundakennari við HR og ritstjóri Vísbendingar.
Fundurinn var haldinn í Skuggasundi 3 kl. 14-16. Guðný Káradóttir verkefnastjóri skráði fundargerð.
Fundargerð síðasta fundar
Fundargerð 49. fundar sem haldinn var þann 10. febrúar sl. var samþykkt.
2. Meginskilaboð annars vinnuhóps IPCC
- Anna Hulda Ólafsdóttir kynnti stefnumarkandi samantekt (e. Summary for Policy Makers) á matsskýrslu annars vinnuhóps IPCC sem samþykkt var samhljóða af öllum aðildarríkjum stofnunarinnar 27. febrúar sl. og kynnt á blaðamannafundi morguninn eftir. Hún gerði einnig grein fyrir því hvernig kynningu hér á landi verður háttað.
- Spurningar og umræður. Þá kom fram að Brynhildur Davíðsdóttir verður í sendinefnd Íslands þegar aðildarríkin taka stefnumarkandi samantekt skýrslu þriðja vinnuhóps IPCC til afgreiðslu í byrjun apríl. Ráðið mun fjalla um þær niðurstöður og taka ákvörðun þá hvort það sendi frá sér álit.
Ríkissjóður og loftslagsmarkmið
Ráðstöfun tekna og gjalda Ríkissjóðs í þágu loftslagsmarkmiða hefur verið sett á dagskrá ráðsins. Tilgangurinn er að hefja umræðu um efnið en markmiðið er að auka gagnsæi um tekjur og útgjöld íslenska ríkisins sem tengjast loftslagsmálum. Formaður greindi frá að búið er að ganga frá samkomulagi um að tveir sérfræðingar muni vinna með ráðinu sem verktakar í þessu verkefni. Þetta eru Hrafnhildur Bragadóttir og Jónas Atli Gunnarsson sem kynntu sig á fundinum.
Í umræðu um efnið var lögð áhersla á aukið gagnsæi í loftslaglagshagstjórn. Óskað var eftir fulltrúum í undirhóp til að vera bakland sérfræðinga og verkefnastjóra í þessu verkefni.
Önnur mál
Formaður greindi frá auknum liðsafla á skrifstofu Loftslagsráðs. Svo að ráðið nái betur að standa undir væntingum til þess um faglega greiningargetu hefur verið gengið frá samstarfssamningum við Hrafnhildi Bragadóttir lögfræðing og við Kjarnann/Vísbendingu vegna Jónasar Atla Gunnarssonar hagfræðings. Þau hafa bæði gengið til liðs við skrifstofu Loftslagsráðs til að sinna afmörkuðum verkefnum.
Greint var frá undirbúningi að Samtali og sókn um millilandasamgöngur, viðburði sem streymt verður þann 14. mars nk. kl. 14.