19. maí 2021
Mætt: Halldór Þorgeirsson, Brynhildur Davíðsdóttir, Ragnhildur Freysteinsdóttir, Auður Alfa Ólafsdóttir, Sigurður Loftur Thorlacius, Hildur Hauksdóttir, Jóhanna Harpa Árnadóttir, Árni Finnsson, Sveinn Margeirsson, Steingrímur Jónsson, Guðmundur Þorbjörnsson, Hrönn Hrafnsdóttir, Guðfinna Th. Aðalgeirsdóttir og Unnsteinn Snorri Snorrason.
Varafulltrúi sem sat fundinn: Hafdís Hanna Ægisdóttir.
Gestir fundarins voru: undir lið 2 Björn Bjarnason og undir lið 4 Hafdís Hanna Ægisdóttir forstöðumaður Stofnunar Sæmundar fróða og Sóllilja Bjarnadóttir doktorsnemi.
Fundurinn var haldinn í Háhyrnu, Skuggasundi 3 kl. 13-15. Guðný Káradóttir verkefnisstjóri skráði fundargerð.
Fundargerð síðasta fundar
Fundargerð síðasta fundar var samþykkt.
Ræktum Ísland!
Björn Bjarnason sem er annar þeirra sem leiddi vinnu við umræðuskjal um mótun landbúnaðarstefnu, var gestur fundarins. Hann kynnti nýútkomið umræðuskjal verkefnastjórnar um landbúnaðarstefnu og lagði sérstaka áherslu á að kynna loftslagsvíddina. Í skjalinu er 19 áherslupunktar og sagði hann áherslu á loftslagsmálin mikla; tillaga 8 fjallar m.a. um kolefnisjöfnun landbúnaðar. Umræðuskjalið er að finna í Samráðsgátt stjórnvalda og er hægt að veita umsögn til 26. maí.
Fyrirspurnir og umræður að lokinni kynningu Björns.
Samtal og sókn
Rætt verður um reynslu og lærdóm af fundi um ferðaþjónustuna sem haldinn var 5. maí sl. sem haldinn var undir merkjum Samtals og sóknar í loftslagsmálum. Viðburðurinn þótti takast vel og þakkaði formaður verkefnisstjóra fyrir undirbúning og þeim sem þátt tóku.
Í kjölfarið var rætt um sambærilegt samtal við sjávarútveginn sem verður streymt frá 2. júní nk. Fyrir fundinum lá samantekt um sjávarútveg frá febrúar sl. en einnig kynnti verkefnisstjóri upplýsingar um losun gróðurhúsalofttegunda, m.a. úr samantekt Eflu sem unnin var fyrir Loftslagsráð. Rætt var um sýn fulltrúa í ráðinu á nálgun og spurningar sem lagt verður upp með á fundinum 2. júní. Tveir fulltrúar Loftslagsráðs þau Hrönn Hrafnsdóttir og Halldór Þorgeirsson verða spyrlar og fjórir aðilar í sjávarútvegi og sérfræðingar í málefnum greinarinnar taka þátt í þessu samtali. Samþykkt var að undanskilja losun frá flugi og skipaflutningum milli landa (útflutningi afurða) úr umræðunni á fundinum þar sem til stendur að beina sjónum að milliríkja samgöngum á öðrum viðburði í viðburðaröðinni Samtal og sókn.
Vísindaráðgjöf
Gestir fundarins þær Hafdís Hanna Ægisdóttir, forstöðumaður Stofnunar Sæmundar fróða og Sóllilja Bjarnadóttir doktorsnemi sögðu frá framgangi vinnu við kortlagningu á vísindaráðgjöf sem þær vinna að í samvinnu við Loftslagsráð. Markmiðið er að gefa yfirsýn og leggja grunn að umræðu um þverfræðilega og öfluga vísindaráðgjöf um loftslagsmál á Íslandi sem skili auknum gæðum í stefnumörkun og ákvarðanatöku. Tekin hafa verið viðtöl við 10 sérfróða aðila, yfirmenn rannsóknastofnana, háskólarektora, fulltrúa fyrirtækja og stofnana. Í umræðum komu fram spurningar og ábendingar varðandi kortlagninguna.
Ráðherrafundur Norðurskautsráðsins
Vakin var athygli á ráðherrafundi Norðurskautráðsins sem haldinn verður í Hörpu 20. maí. Loftslagsmálin verða á dagskrá og fundurinn talinn mikilvægur.
Önnur mál
Engin önnur mál voru á dagskrá fundarins.