3. febrúar 2021
Mætt: Halldór Þorgeirsson, Brynhildur Davíðsdóttir, Ragnhildur Freysteinsdóttir, Auður Alfa Ólafsdóttir, Sigurður Loftur Thorlacius, Steingrímur Jónsson, Hildur Hauksdóttir, Hrönn Hrafnsdóttir, Jóhanna Harpa Árnadóttir, Árni Finnsson, Guðfinna Th Aðalgeirsdóttir, Sveinn Margeirsson, Unnsteinn Snorri Snorrason og Hafdís Hanna Ægisdóttir varafulltrúi (f.h. Neytendasamtakanna).
Gestir ráðsins: Halla Sigrún Sigurðardóttir skrifstofustjóri og Anna Sigurveig Ragnarsdóttir sérfræðingur í Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu (liður 3).
Fundurinn var haldinn á Teams kl. 10-12.15 þann 3. febrúar. Guðný Káradóttir verkefnisstjóri skráði fundargerð.
Í upphafi fundar kynnti Unnsteinn Snorra Snorrason sig, en hann er nýr fulltrúi Bændasamtakanna í Loftslagsráði.
Fundargerð síðasta fundar
Fundargerð síðasta fundar var samþykkt með orðalagsbreyetingum.
Írska loftslagsráðið: lærdómur af úttekt á starfsemi ráðsins
Formaður kynnti úttekt á írska loftslagsráðinu sem hann vann ásamt tveimur öðrum. Úttektin var unnin í aðdraganda þess að verið er að endurskoða löggjöf um loftslagsmál á Írlandi. Niðurstöðurnar eru nú opinberar og voru aðgengilegar fulltrúum fyrir fundinn. Hann rakti helstu atriði í úttektinni og þær ábendingar sem komu fram hjá úttektarnefndinni um hvernig mætti efla ráðið. Umræður og spurningar um helstu þætti og lærdóm fyrir íslenska ráðið. Rætt meðal annars um mikilvægi sanngirni og jöfnuðar í þeim umskiptum í átt að kolefnishlutleysi sem nú eru að eiga sér stað og var ákveðið að taka það málefni til vandaðrar umfjöllunar í ráðinu.
Kolefnishlutleysi
Loftslagsráð sendi frá sér samantekt um kolefnishlutleysi í apríl 2020 þar sem hugtakið er kynnt til sögunnar á íslensku og það tengt við mörkun loftslagstefnu fyrir Ísland. Þar voru næstu skref dregin upp bæði fyrir ráðið sjálft og sem tilmæli til stjórnvalda. Fyrir ráðinu lá minnisblað sem rifjar upp það helsta sem gerst hefur síðan samantektin var gefin út.
Markmið umræðunnar undir þessum lið var að:
1. Leggja mat á þá þróun sem átt hefur sér stað síðan samantekt ráðsins um kolefnishlutleysi kom út.
2. Heyra um áform stjórnvalda og næstu skref. 3. Skilgreina markmið atburðar um kolefnishlutleysi.
4. Móta áherslur ráðsins varðandi kolefnishlutleysi.
Halla Sigrún og Anna Sigurveig frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu kynntu áform umhverfis- og auðlindaráðuneytisins varðandi vinnu við stefnumótun stjórnvalda um kolefnishlutleysi 2040 og lögfestingu þess markmiðs. Ráðuneytið muni óska eftir að fá fulltrúa úr Loftslagsráði í ráðgjafahóp varðandi stefnumótunarvinnuna sem framundan er. Gagnaöflun er nú í gangi og von á áfanganiðurstöðu úr þessari vinnu í vor. Einnig kom fram að unnið er að áætlun um umbætur í þeim hluta loftslagsbókhaldsins er lýtur að áhrifum breytinga á landnotkun á kolefnisbúskap (losun og bindingu). Unnið er samkvæmt umbótaáætlun til ársins 2023.
Fulltrúar spurðu út í ýmis atriði og komu með ábendingar m.a. sem snéru að því að stjórnvöld skýri út viðmiðunarár þegar kemur að losun frá landi, samráð verði við atvinnulífið og ungt fólk í þessari stefnumótun, skýrt verði hvað verði lögfest varðandi kolefnishlutleysi og væntingar um að til verði langtímastefna Íslands um loftslagsmál og kolefnishlutleysi.
Umræða var um framvindu verkefnis er lýtur að óvissu varðandi nettólosun frá landi, sem sett var í gang á fundi Loftslagsráðs 13. janúar sl., og undirstrikað að aðkoma ráðsins breytir ekki þeirri staðreynd að það er stjórnvalda, ekki Loftslagsráðs, að grípa til nauðsynlegra ráðstafana varðandi þá óvissu.
Rætt um næstu skref á vettvangi Loftslagsráðs, m.a. viðburð um kolefnishlutleysi, markmið og áherslur. Fundurinn sammála um að byrja á skilgreiningu, horfa á stóru myndina en ekki bara samningsbundin markmið. Áhugi kom fram um að fá sjónarmið erlendis frá inn á viðburðinn, skoða reynslu annarra þjóða við stefnumótun og jafnvel sýn og viðhorf almannasamtaka.
Viðburðaröð Loftslagsráðs
Ráðið var upplýst um stöðu undirbúnings viðburða undir merkjum „Samtal og sókn“ um ferðaþjónustu og sjávarútveg. Áformað er að láta taka saman upplýsingar sem ætlað er að varpa skýrara ljósi á tækifæri til að auka verðmætasköpun í sjávarútvegi á hverja einingu losunar. Rætt um framgang vinnu starfshóps sbr. aðgerð B.1 í aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, orkuskipti í sjávarútvegi, um líkan við orkuspá og um veiðar vs. fiskeldi og muninn á þeim varðandi umfang og möguleika til orkuskipta. Samtöl verkefnisstjóra við hagaðila í ferðaþjónustu sýna að almennur áhugi er meðal þeirra á leiðum til að minnka kolefnisspor. Framundan er m.a. fundur með bílaleiguhóp SAF.
Óskað var eftir fulltrúum í undirhóp til að undirbúa þessa viðburði með verkefnisstjóra.
Samskipti
Fyrir fundinum lá samskiptayfirlit fyrir tímabilið desember 2020 til og með janúar 2021. Sagt var frá undirbúningi vinnustofu um ábyrga kolefnisjöfnun sem haldin verður í febrúar og mars í samstarfi við Staðlaráð. Upplýsingar um þetta verkefni verða sendar á fulltrúa í ráðinu.
Önnur mál
Formaður sagði frá undirbúningi verkefnis um faglegt bakland loftslagsmála. Fundur hefur verið haldinn með fulltrúa frá Stofnun Sæmundar fróða sem mun taka að sér greiningarvinnu í tengslum við þetta verkefni. Það verkefni verður á dagskrá næsta fundar ráðsins þann 24. febrúar nk.