Hoppa yfir valmynd

Starfsáætlun og ársskýrslur

Yfirlit yfir störf Loftslagsráðs 2020-2021

Hér má kynna sér ársskýrslu fyrir tímabilið ágúst 2020 til júní 2021.

Starfsáætlun 2020-2021

Inngangur 

Starfsáætlun þessi gildir frá ágúst 2020 til júlí 2021. Hér er hægt að hlaða henni niður í pdf skjali.

Loftslagsráð er sjálfstætt starfandi ráð, skipað fulltrúum hagaðila, umhverfisverndarsamtaka, neytenda, sveitastjórna og háskólasamfélagsins. Hlutverk þess er að veita stjórnvöldum aðhald og ráðgjöf um stefnumarkandi ákvarðanir sem tengjast loftslagsmálum á Íslandi, sem og að hafa yfirsýn yfir fræðslu og miðlun upplýsinga um loftslagsmál til almennings. 

Loftslagsráð sækir umboð sitt til laga um loftslagsmál (nr. 70/2012), eftir að þeim var breytt árið 2019, og sinnir verkefnum í anda þeirra laga. Markmið laganna er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, auka bindingu kolefnis úr andrúmslofti, stuðla að aðlögun að afleiðingum loftslagsbreytinga og skapa skilyrði fyrir stjórnvöld til þess að standa við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum. 

Loftslagsráð sinnir hlutverki sínu með því að:

  • Rýna stefnu og áætlanir stjórnvalda sem snerta loftslagsmál
  • Stuðla að upplýstri umræðu um markmið og leiðir 
  • Veita ráðgjöf um aðlögun að loftslagsbreytingum
  • Standa fyrir og stuðla að upplýsingamiðlun og fræðslu um loftslagstengd málefni

Loftslagsráð er mikilvægur vettvangur fyrir hagaðila til að koma ábendingum og hugmyndum á framfæri við stjórnvöld. Ráðið er einnig samræðuvettvangur þar sem fulltrúar ólíkra sjónarmiða leita samstöðu um grundvallaratriði og sameiginlega hagsmuni.

Loftslagsráð skal gæta óhlutdrægni og vera sjálfstætt í störfum sínum. Ráðið leggur áherslu á að tengja saman reynsluheima, vera hvati að markvissara samtali um markmið og leiðir í loftslagsmálum og að virkja bakland fulltrúa í ráðinu. Ráðið tekur mið af Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna í umfjöllun sinni um loftslagsmál og hefur samráð við Stjórnarráðið og stofnanir þess.

Skipað var í núverandi Loftslagsráð í ágúst 2019 og er skipunartími þess fjögur ár. Eftirtaldir aðilar tilnefndu fulltrúa og varafulltrúa í ráðið:

  • Alþýðusamband Íslands
  • Festa – miðstöð um samfélagsábyrgð
  • Háskólasamfélagið (2 fulltrúar)
  • Bændasamtök Íslands
  • Viðskiptaráð Íslands
  • Neytendasamtökin 
  • Samband íslenskra sveitafélaga (2 fulltrúar)
  • Samtök atvinnulífsins
  • Umhverfissamtök (2 fulltrúar)

Umhverfis- og auðlindaráðherra skipar þrjá aðila án tilnefningar, formann og varaformann, auk fulltrúa ungs fólks.

Áherslur Loftslagsráðs 

Ráðið leggur megináherslu á eftirtalda þætti: 

  • Mótvægisaðgerðir til að draga úr losun og auka bindingu gróðurhúsalofttegunda. 
  • Áhættumat og viðnámsþol gagnvart loftslagsvá. 
  • Almenna vitund um loftslagsvandann og leiðir til að sporna við. 

Spurningin sem stjórnvöld og samfélagið allt stendur frammi fyrir er ekki hvort kolefnishlutlaust Ísland sé möguleiki, heldur hvers konar kolefnishlutlaust Ísland fellur best að framtíðarsýn þjóðarinnar. Margar leiðir eru færar að þessu marki. Leiðin sem farin verður mun ráða úrslitum um lífsgæði og hagsæld þeirra sem landið munu byggja.  

Viðureignin við loftslagsvá kallar á samstillingu við hagstjórn og stefnumótun á flestum sviðum samfélagsins. Þróa þarf vísitölur sem stuðla að framförum. Hámarka þarf  verðmætasköpun fyrir hvert tonn af gróðurhúsalofttegundum sem losað er út í andrúmsloftið. 

Nota þarf öll tiltæk verkfæri í verkfærakistunni, svo sem hagræn stjórntæki (skatta, gjöld og ívilnanir); skipulag á landnotkun og byggð; lög og reglugerðir; þátttöku í svæðasamstarfi um viðskipti með losunarheimildir (EU ETS); endurheimt vistkerfa; kolefnisjöfnun; viðskipti með kolefniseiningar á innlendum markaði; þróun hringrásarhagkerfis; rannsóknir og nýsköpun og upplýsingu og fræðslu. 

Nauðsynlegt er að útfæra nánar þá tæknilegu möguleika til samdráttar og bindingar sem tiltækar eru og hvað þurfi til svo að markmiðið um kolefnishlutlaust Ísland árið 2040 verði að veruleika. 

Stjórnvöld, atvinnulíf og þjóðin öll þarf einnig að hafa góðan skilning og upplýsingar um þá áhættu sem loftslagsvá skapar og leiðir til að auka viðnámsþrótt með aðlögun.  

Upplýst umræða, aðgengi að áreiðanlegum og auðskildum upplýsingum og tenging við alþjóðlega strauma er forsenda árangurs í loftslagsmálum.  

Næsta skref er að útfæra í megindráttum framtíðarsýn um kolefnishlutlaust Ísland og kynna hana og þróunaráætlun um hvernig hún getur orðið að veruleika á vettvangi Parísarsamningsins fyrir COP 26 sem haldið verður 2021. 

Það markmið að Ísland verði kolefnishlutlaust árið 2040 hefur ekki verið lögfest eins og nokkur þjóðþing hafa þegar gert varðandi sambærileg markmið. Slíkt skapar aukna stefnufestu og eykur líkurnar á því að markmiðið hafi varanleg áhrif. Loftslagsráð telur mikilvægt að það skref verði stigið hér á landi. 

Ráðið er sjálfstætt í störfum sínum og stendur vörð um skýrleika, hlutlægni, trúverðugleika, sjálfstæði og gagnsæi. Með verkum sínum skal ráðið stuðla að virkri umræðu um stefnu stjórnvalda og aðgerðir í loftslagsmálum. 

Viðfangsefni 2020-2021

1. Aðhald og ráðgjöf til stjórnvalda 

Markmið:

  • Veita þeim sem bera ábyrgð aðhald og auka hugrekki í nauðsynlegar aðgerðir 

Leiðir:

  • Rýna stefnumörkun og aðgerðaáætlanir sem snerta loftslagsmál og koma með tillögur um leiðir til að ná meiri og skjótari árangri.

2. Upplýst umræða, upplýsingamiðlun og fræðsla 


Markmið:

  • Auka skilning, þekkingu og staðfestu almennings í loftslagsmálum
    - Auka vitund um alvarleika málsins en líka miðla bjartsýni með upplýsingum um hvaða leiðir eru færar til að ná árangri
  • Stuðla að auknu samstarfi og samstöðu um að ráðast þurfi í árangursríkar aðgerðir
    - Samstarf við gerendur og hagaðila, ríki, sveitarfélög vísindasamfélagið, atvinnulífið og almenning 

Leiðir:

  • Vinna að framkvæmd aðgerða í samskiptaáætlun.
  • Vísindaleg þekking og skuldbindingar á alþjóðavettvangi komist inn í umræðu og umfjöllun um stefnu og aðgerðir í loftslagsmálum á Íslandi.
  • Lögð verður áhersla á að taka mið af og fjalla um það sem er að gerast á alþjóðavettvangi í loftslagsmálum, einkum í aðdraganda loftslagsráðstefnunnar COP26 sem haldin verður í nóvember 2021.

3. Kolefnishlutleysi og aðrar skuldbindingar 


Markmið:

Beinar aðgerðir á afmörkuðum sviðum eru nauðsynlegar en stefnubreytingar þurfa einnig að koma til. Tímabært er að víkka sjónarhornið og samtvinna betur aðkomu löggjafans og framkvæmdavaldsins og aðra ákvarðanatöku þannig að úr verði heildstæð loftslagsstefna Íslands. Öll löggjöf og stefnumörkun stjórnvalda þarf að taka mið af loftslagsmálum svo velferð og hagsæld verði tryggð til framtíðar. Auka þarf gagnsæi og skýra hvernig tekjur af hagrænum stjórntækjum svo sem kolefnisgjöldum og grænum sköttum skila sér til aðgerða í loftslagsmálum og að gjaldtakan verði ekki varanleg. Tryggja þarf fjármagn til nauðsynlegra aðgerða, en frekara fjármagn þarf til til að viðunandi árangur náist.

Breyttar aðstæður meðan COVID-19 heimsfaraldurinn stendur sem hæst og í kjölfar hans, setja áætlunina í nýtt samhengi. Óvissutímar kalla á sveigjanleika og skýr markmið. Fram undan er uppbyggingartímabil og nýta þarf fjármagn í að stýra samfélaginu í átt að því lágkolefnishagkerfi sem þjóðin sækist eftir. Endurreisnin opnar tækifæri til að auka enn frekar samkeppnishæfni Íslands og styrkja stoðir nýsköpunar og atvinnulífsins sem þarf að aðlagast breyttum heimi. Opinberir aðilar geta gengið á undan með góðu fordæmi í fjárfestingum og vistvænum framkvæmdum m.a. í byggingariðnaði, innleiðingu nýrra orkugjafa og endurnýjun innviða.

Stuðla þarf að upplýstri umræðu um stefnu og aðgerðir í loftslagsmálum til að ná þeim markmiðum sem sett hafa verið í loftslagsmálum af hálfu Íslands til ársins 2030 og að ná kolefnishlutleysi árið 2040.

Leiðir:

Loftslagsráð mun gangast fyrir röð viðburða um 2030 skuldbindingar Íslands þar sem komið verður á samtali milli Loftslagsráðs og gerenda og hagaðila um aðgerðir til að ná þeim sem fyrst og á sem hagkvæmasta hátt. Markmiðið er að skapa aðhald og hvatningu, sem og aukinn þrýsting á að flýta aðgerðum og fjárfestingum. Valin verða viðfangsefni og haldnir 3-5 slíkir fundir á starfsárinu. 

Loftslagsráð mun standa fyrir atburðum sem auka meðvitund um mikilvægi kolefnishlutleysis, um þróun á alþjóðavettvangi á þessu sviði og hvernig aðrar þjóðir hafa staðið að stefnumörkun um kolefnishlutleysi sem aðildarríki Parísarsamningsins eru hvött til að birta fyrir árslok 2020 og tengjast undirbúningi 26. aðildarríkjaþingi Loftslagssamningsins í Glasgow (COP 26) í nóvember 2021. 

Loftslagsráð mun fylgja eftir tillögu sinni um að unnin verði markviss áætlun um útfösun á notkun jarðefnaeldsneytis.

4. Áhættumat, aðlögun og viðnámsþol 

Markmið:

Ísland hefur ekki mótað stefnu um aðlögun eða gert aðgerðaáætlun í því tilliti. Þó er ljóst að afleiðingar loftslagsbreytinga hér á landi, t.a.m. vegna aukinnar úrkomuákefðar og súrnunar sjávar, fela í sér umtalsverða áhættu fyrir fólk, eignir, innviði og efnahag. Við blasir að auka verði rannsóknir og vöktun á áhrifum loftslagsbreytinga á Íslandi og afleiðingum þeirra fyrir íslenskt samfélag. Jafnframt þarf að auka samhæfingu ólíkra aðila, innan stjórnkerfisins, atvinnulífs, háskóla-samfélagsins, annarra stofnana og félagasamtaka. Auk þess er grundvallaratriði að huga að fræðslu og aðgengi að upplýsingum vegna loftslagstengdrar áhættu fyrir ofangreinda aðila sem og almenning.

Lagt er til að unnin verði í samráði við viðeigandi hagaðila stefna um aðlögun Íslands að loftslagsbreytingum sem næsta skref að markmiði stjórnvalda um stefnumörkun og áætlanagerð vegna aðlögunar og því langtímaverkefni að skapa heildrænt skipulag fyrir þennan málaflokk.   

Leiðir:

  • Tryggðar verði stoðir vísindaráðgjafar og áhættumats vegna loftslagsvár með því að endurvekja Vísindanefnd um loftslagsbreytingar. Vísindanefndinni verði falið að vinna sviðsmyndir um loftslagsvá fyrir Ísland. 
  • Veðurstofu Íslands verði falið að styðja við starf vísindanefndarinnar og miðlun upplýsinga um áhættumat fyrir Ísland og hnattrænt áhættumat Milliríkjanefndar SÞ um loftslagsbreytingar (IPCC).
  • Tillögum Loftslagsráðs í umræðuplaggi um aðlögum, „Að búa sig undir breyttan heim“ verði fylgt eftir.
  • Hópurinn sem tók þátt í samtali eftir málþing um aðlögun í maí 2019 verði kallaður aftur saman til að auka samstillingu og samtal um aðlögunarmál.

5. Kolefnishagstjórn


Markmið:

Viðureignin við loftslagsvá kallar á samstillingu við hagstjórn og stefnumótun á flestum sviðum samfélagsins. Þróa þarf vísitölur sem stuðla að framförum. Hámarka þarf verðmætasköpun fyrir hvert tonn af gróðurhúsalofttegundum sem losað er út í andrúmsloftið.

Kolefnisjöfnun, hvort sem hún er með bindingu eða fjármögnun á samdrætti annars staðar, þarf að vera ábyrg, vísindalega staðfest og vottuð. Innviðir fyrir kolefnisjöfnun innanlands eða í samstarfi við aðrar þjóðir eru of veikir eins og stendur. Tryggja þarf að aðferðafræði við mat á losun og bindingu, útgáfu og viðskipti með kolefniseiningar standist kröfur um gagnsæi og fagleg vinnubrögð. Skrá þarf íslenskar kolefniseiningar og viðskipti með þær. Einnig þarf að koma á vottun á þessum þáttum.

Tryggja þarf opinbert aðgengi að tölum um skattheimtu og opinbera gjaldtöku og önnur hagræn stjórntæki sem áhrif geta haft á framfarir í átt að loftslagsmarkmiðum.

Upplýsingagjöf um kolefnisspor vöru og þjónustu og notkun kolefnisjöfnunar í því sambandi þarf að vera gagnsæ og ábyrg.   

Leiðir:

  • Ráðið sendi frá sér álit um ábyrga kolefnisjöfnun.
  • Lokið verði við vinnu sem hófst a 2. starfsárinu um hagræn stjórntæki 

6. Öflug stjórnsýsla loftslagsmála


Markmið:

Skilgreina þarfir og væntingar til stjórnsýslu í loftslagsmálum og draga fram hvaða leiðir eru færar til að uppfylla þarfir og væntingar til málaflokksins með það að leiðarljósi að lágmarka megi skaða af loftslagsvá og hámarka samkeppnishæfni Íslands í lágkolefnishagkerfi framtíðarinnar.

Leiðir:

Loftslagsráð mun fylgja eftir þeim tillögum sem gerðar voru í samantekt um framtíðarskipulag stjórnsýslu loftslagsmála, útgefin í júní 2020.

 

Fulltrúar í Loftslagsráði

Í Loftslagsráði sitja 15 manns, fulltrúar atvinnulífsins, háskólasamfélagsins, sveitarfélaga, neytendasamtaka og umhverfisverndarsamtaka auk annarra fulltrúa sem nauðsynlegt er talið að eigi sæti í ráðinu á hverjum tíma. Ráðherra skipar auk þess formann og varaformann Loftslagsráðs, auk fulltrúa unga fólksins. 

Lesa um fulltrúa...

 

Fundargerðir

Loftslagsráð fundar reglulega og fjallar um áherslumál og verkefni, birtir álit og greinargerðir. Fundargerðir birtar opinberlega og eru aðgengilegar á vefnum. 

Skoða fundargerðir...

 

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies) til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Nánar